Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 21:37:42 (7250)

2004-04-29 21:37:42# 130. lþ. 106.13 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[21:37]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á Alþingi hafa menn lengi búið við að þurfa að gera áætlanir. Hér vinna menn með fjárlög sem byggja á áætlunum. Ég tek það hreinlega ekki gilt að ekki sé hægt að gera áætlun um tekjur af gjaldinu. Mér finnst ekki hægt að skrifa upp á það. Þó svo að það hafi vantað fáeina daga upp á að tímabilinu væri lokið vil ég meina að það hefði verið fullkomlega hægt að afla sér það haldgóðra upplýsinga að menn kæmust mjög nærri sannleikanum. Ég trúi því ekki að í ráðuneytinu hafi menn ekki verið að vinna í málinu, þó menn hafi kosið af einhverjum ástæðum, sem ég veit ekki hverjar eru, að hafa ekki áætlun um tekjur af gjaldinu til staðar við umræðuna. Mér finnst svolítið sérkennilegt að þannig skuli haga til því við erum ekki að tala um neitt venjulegt mál. Við erum að tala um eitt af stærstu átakamálum í sölum Alþingis í gegnum mörg ár og niðurstöðuna sem ríkisstjórnin komst að í því að sætta þjóðina við stjórn fiskveiða.

Þess vegna hefði ég talið að menn hefðu viljað koma til þjóðarinnar og segja: Sjáið hvað þetta er allt saman gott hjá okkur. Veiðigjaldið sem er látið á til þess að gera ykkur sátta við stjórn fiskveiða er svona mikið og allt gengur þetta upp eins og við héldum fram.