Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:05:11 (7330)

2004-05-03 15:05:11# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er engin ástæða til að efast um að þessi dagsetning er rétt en hún breytir í sjálfu sér engu. Ráðuneytið getur ekki skýlt sér á bak við þessa dagsetningu en dagsetningin er örugglega rétt frá ráðuneytinu. Menn eru ekki að biðja um neina mismunun vegna þessarar dagsetningar eða að gera mál úr henni.

Hitt er svo málið sem þarna er lýst. Vinna við þessa skýrslu eins og vill verða er svo umfangsmikil, eins og skýrslubeiðnin ber með sér, að ráðuneytið hefur tilkynnt þinginu að ekki muni nást á tilskildum tíma að vinna skýrsluna. Það liggur fyrir og þetta er ekkert undarlegt, þannig er málið vaxið. Menn þurfa ekki annað en að lesa skýrslubeiðnina og þá sjá menn strax í hendi sér að skýrslan kallar á (Gripið fram í.) --- fyrirgefðu, þingmaður. (ÖS: ... í allt sumar?) Já, það má vel vera að menn verði það lengi en eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu er þessi skýrslubeiðni þannig sem menn þurfa að vinna vel og hún kallar á meiri tíma. Það er ekkert flóknara en svo. Einfalt, ekki flókið.