Afbrigði

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:47:31 (7352)

2004-05-03 15:47:31# 130. lþ. 108.96 fundur 529#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Áður en þessi atkvæðagreiðsla fer fram óska ég eftir því að hæstv. forsrh., fyrir hönd aðstandenda þessa frv., upplýsi þingheim um það hverjar áætlanir aðstandendanna eru um meðferð málsins. Er þetta frv. lagt hér fram eftir atvikum til kynningar, 1. umr. og umfjöllunar á þessu vorþingi og þessum fáu dögum sem eftir lifa eða er ætlun hæstv. ríkisstjórnar í krafti meiri hluta síns hér að knýja málið í gegn á þessu vorþingi?

Ég tel að það skipti okkur máli sem ætlum að fara að taka þátt í atkvæðagreiðslu hér um það hvort veita eigi heimildir fyrir afbrigðilegri málsmeðferð að fá um það skýr svör. Við eigum heimtingu á því. Ég vil taka það fram fyrir hönd þingflokks okkar, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að við mundum ekki gera athugasemdir við það að þetta mál kæmi hér á dagskrá og yrði rætt en við erum alfarið andvíg því að það verði knúið fram með flýti á fáeinum sólarhringum í bullandi ágreiningi ef svo ber undir og munum þá að sjálfsögðu ekki fallast á heimildir fyrir afbrigðum ef svo er.

Ég óska því eftir því að hæstv. forsrh. gefi skýr svör um það hver áform ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar eru um meðferð eða afdrif málsins á þessu þingi. Ég held að allir hljóti að sjá að við eigum heimtingu á því að verða upplýst um stöðu málsins áður en atkvæðagreiðslan fer fram.