Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:15:27 (7362)

2004-05-03 16:15:27# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. vegna þess að hann minntist ekki á þau mál í framsöguræðu sinni: Hvaða fjölmiðlafyrirtæki sem hér hafa starfað frá 1985--1986, þegar einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn, mundi standast það nálarauga sem frv. hans gerir ráð fyrir? Sérstaklega vil ég spyrja hæstv. forsrh. um það í tilefni af ummælum hans fyrir nokkrum missirum í sérstakri bók að þátttaka hans, Morgunblaðsins og ýmissa risa á markaði sem þá voru í tilraun hans til ljósvakafjölmiðlunar í fyrirtækinu Ísfilm 1987--1988. Um það sagði forsrh. að það hefði verið rétt ákvörðun á röngum tíma. Væri það núna rétt ákvörðun á réttum tíma eða hvernig liti forsrh. á það fyrirtæki í ljósi frv. sem hann flytur nú?