Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:18:10 (7364)

2004-05-03 16:18:10# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það kemur í ljós að hæstv. forsrh. og menn hans hafa ekki hugleitt málið. Þeir hafa ekki skoðað þá 19 ára sögu sem ljósvakar á markaðsforsendum eiga hér á landi. Þeir hafa ekki farið í gegnum það hvernig fyrirtæki fyrir 19 árum og þau sem voru til fyrir þremur árum hefðu staðist frv., sem hlýtur þó að sýna að einhverju leyti hvaða framtíð við megum eiga von á í þessu.

Það er undarlegt að hæstv. forsrh. skuli ekki geta svarað því til hvað honum finnist um Ísfilm vegna þess að það er ekki langt liðið síðan hann sagði í bók Ásdísar Höllu Bragadóttur að Ísfilm hefði verið rétt ákvörðun á röngum tíma. Hæstv. forsrh. sagði að tíminn hafi verið rangur vegna þess að efnahagslegar aðstæður voru ekki fyrir hendi til þess að slíkt fyrirtæki gæti rekið sig. Hvað er rangt við þann tíma sem nú lifir?