Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:25:33 (7372)

2004-05-03 16:25:33# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Heldur fannst mér svar hæstv. forsrh. þunnt. Ég spurði hann m.a. að því hvort hann sæi engan hagsmunaárekstur í því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands væri líka hluthafi í næststærsta dagblaði Íslands sem einnig á að fullu netmiðil. Við vitum það öll sem fylgjumst með og notum okkur tækni dagsins í dag að internetið verður sífellt meira ráðandi í fréttamiðlun, bæði á Íslandi og út um allan heim og hægur vandi bæði að sjónvarpa og útvarpa í gegnum internetið. Hafa menn ekkert hugleitt þennan möguleika?

Hitt atriðið sem ég spurði um varðar umræðuna. Umræða og orð eru til alls fyrst. Hægt er að taka umræðuna á málefnalegum grundvelli til að byrja með og fara síðan að huga að lagasetningu. Það var það sem ég var að tala um áðan. Við ættum að gefa okkur tíma til þess í sumar, hæstv. forsrh., að fara yfir hvernig við ætlum að búa til lög um þetta, því að ég er alveg sammála því að það þarf að skoða þessa hluti og byrja síðan í haust og nota næsta vetur til þess að ganga frá málinu en ekki að gera það núna á tíu dögum eða tveimur vikum.