Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:27:27 (7374)

2004-05-03 16:27:27# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að spyrja: Hvernig sér hæstv. forsrh. fyrir sér fjármögnun fjölmiðlafyrirtækis eftir að lögin taka gildi? Fyrirtækjahópar, t.d. bankar, geta verið markaðsráðandi samkvæmt skilgreiningu Samkeppnisstofnunar. Sameiginlega hafa þeir markaðsráðandi stöðu vegna tengsla í gegnum kortafyrirtæki og Reiknistofnun. Þeir gætu, bæði vegna ákvæðisins um markaðsráðandi stöðu og vegna þess að ekkert fyrirtæki má eiga meira en 25% í fjölmiðlafyrirtæki, ekki tekið veð í hlutabréfum fjölmiðlafyrirtækis vegna þess að þeir mættu ekki eiga í fyrirtækinu.

Þýðir þetta ekki að engin lán er að hafa fyrir slík fyrirtæki á markaðnum? Ekkert lán. Hverjir gætu þá tekið við fyrirtækinu Norðurljósum? Hvernig sér hæstv. forsrh. fyrir sér eignarskipti á fyrirtækjum af þessu tagi ef þau komast í þrot?