Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:55:20 (7382)

2004-05-03 16:55:20# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur ekki hlustað nógu vel. Við í Samfylkingunni höfum einmitt lagt fram tillögur um það að sett verði lög sem hafa áhrif á afleiðingar samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði. Það eru þessar hugmyndir sem ég hef hér verið að lýsa.

Ég veit ekki hvernig menn vinna í Framsfl., herra forseti, en svona af þessari umræðu og málavöxtum öllum tel ég að þeir vinni þannig að hæstv. forsrh. tekur ákvörðun og síðan fari þeir eftir henni.

Í Samfylkingunni er það þannig að við förum gaumgæfilega yfir þessi mál. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og fleiri þingmenn sem hafa tjáð sig um þessi mál tóku þátt í þessari vinnu. Hvernig heldur hv. þm. að þetta þingmál sem ég er hér að vísa til hafi orðið til? Heldur hann að það hafi dottið af himnum ofan? Það er ekki svona. Hlutirnir detta ekki inn á borð hjá okkur í Samfylkingunni eins og þeir gera hjá Framsfl. þar sem þeir detta úr Stjórnarráðinu inn á borð hv. þingmanna Framsfl. sem virðast ekki hafa sjálfstæðan vilja og eru búnir að sýna það hve mikils virði forsætisráðherrastóll er. Það er nú önnur saga.

Það sem ég vil segja hér, herra forseti, er að ég er sammála hæstv. forsrh. um að við eigum að taka mikið mark á tilmælum Evrópuráðsins.

Það kemur fram í grein í Morgunblaðinu í gær hjá færasta og fremsta sérfræðingi Evrópuráðsins um fjölmiðlamál að túlka beri tilmælin með þeim hætti að ríki sem herðir mjög skilyrði fyrir því að veitt séu útvarpsleyfi verður að rökstyðja hvers vegna aðrar vægari leiðir voru ekki færar og ekki farnar. Það er það sem vantar inn í þessa umræðu.

Til eru vægari leiðir sem við teljum og höfum a.m.k. reynt að færa rök fyrir að nái þessum markmiðum. Hæstv. ríkisstjórn, þar með talinn hv. þm. Páll Magnússon, verða að skýra af hverju sú leið var ekki farin.