Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:35:50 (7392)

2004-05-03 17:35:50# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Enn vantar rökin. Sleppum hinu sérstaka staðbundna ákvæði laganna og segjum að útvarp Kántrýbær gæfi út dagblað á Skagaströnd. Væri það hættulegt fyrir lýðræðið og fyrir fjölmiðlana eða væri það þvert á móti kannski æskilegt? Er sú þróun óæskileg í heiminum, í okkar heimshluta á Norðurlöndum og á Íslandi að fjölmiðlafyrirtækin séu í sívaxandi mæli að verða margmiðlunarfyrirtæki, reki í raun og veru starfsemi sína á grundvelli efnis og dagskrár og dreifi þeim síðan á ýmsa miðla, netið, blöð, tímarit, útvarp, sjónvarp? Er það hættuleg þróun fyrir lýðræðið eða stendur lýðræðinu mikil ógn af þeirri þróun? Það er einmitt það sem verið er að koma í veg fyrir með frv. fyrir utan það að verið er grípa inn í sjálft prentfrelsið nánast í fyrsta sinn í sögu okkar að einhverju marki og mér finnst furðulegt að hv. þm. Jón Kristjánsson, gamall ritstjóri og blaðamaður, skuli ljá því stuðning sinn.