Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:03:55 (7404)

2004-05-03 18:03:55# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þegar fyrsti óbreytti þingmaður Sjálfstfl. hefur talað í málinu, eini sjálfstæðismaðurinn á eftir hæstv. forsrh., þá hlustaði ég með athygli á þingmanninn ræða um markaðsráðandi fyrirtæki o.s.frv. Því langar mig að spyrja hv. þm. Drífu Hjartardóttur hvað henni finnist um það að einstaklingar sem eiga í markaðsráðandi fyrirtækjum --- mig langar að taka dæmi af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þessa ágæta fyrirtækis, sem heyrðum um í fréttum að tók sig til og lagði töluvert af peningum sínum inn í Norðurljós í fjárhagslegri endurskipulagningu þess fyrirtækis. Finnst hv. þm. til bóta að það verði bannað, að settum þessum lögum, að aðili sem á í markaðsráðandi fyrirtæki sem er alls óskylt, í þessu tilviki Íslensk erfðagreining, megi ekki leggja fram fé ef hann vill í að endurskipuleggja og skjóta styrkari stoðum undir fyrirtæki eins og Norðurljós í þessu tilfelli?