Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:05:22 (7406)

2004-05-03 18:05:22# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki gott ef hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem hefur flutt ræðu og lýst yfir stuðningi við frv. sem hér er verið að ræða vill ekki segja skoðanir sínar og svara spurningum eins og þeim sem ég lagði fram. Ég skal þá leggja þær fram á ný þannig: Ef ónefndur einstaklingur sem á í markaðsráðandi fyrirtæki á Íslandi í óskyldum rekstri vill leggja eitthvað af peningum sínum í fjölmiðlafyrirtæki í þessu tilfelli, eru það eitthvað verri peningar en frá einhverjum öðrum? Ef menn sem hafa mikið milli handanna vilja leggja fé í fjölmiðla og skjóta stoðum undir rekstur þeirra þannig að þeir séu ekki eins og blöðin voru í gamla daga, alltaf á hausnum og vantaði fé og starfsfólk fékk jafnvel ekki borguð laun um mánaðamót o.s.frv., er fé frá slíkum aðilum eitthvað verra fé en frá einhverjum öðrum?

Í öðru lagi, hverjir eiga þá að leggja fé til fjölmiðla á Íslandi?