Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:07:07 (7408)

2004-05-03 18:07:07# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja út í ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Það er varðandi skýrsluna. Það kemur fram að markmið skýrslunnar er að tryggja lýðræðislega umræðu og þá væri fróðlegt að fá viðhorf hv. þm. til þess hvort ekki hefði verið eðlilegt að það væru ólík viðhorf innan nefndarinnar, að þar væru fulltrúar frá t.d. öllum stjórnmálaflokkum, hvort það væri ekki eðlilegt til þess að það væri tryggt að sjónarmið allra kæmu fram.

Síðan er annað sem mig langaði að spyrja hv. þm. út í. Það kom fram í máli hennar að dag eftir dag væri verið að fjalla um skýrsluna. Ég hefði t.d. talið eðlilegra að við fengjum umræðu um skýrsluna og hún tæki lengri tíma og við kynntum okkur hvernig slík lagasetning færi fram hjá hinum Norðurlöndunum. Þá bærist skýrslan út í samfélagið og menn reyndu að ná fram góðri sátt í stað þess að henda sprengjum út í samfélagið sem virðast beinast nánast að einu fyrirtæki.