Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:58:51 (7418)

2004-05-03 18:58:51# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var virkilega mikill munur á því að heyra ræðu hv. þm. og sjónarmið hans, hann tekur bersýnilega ekki eins og til að mynda talsmenn Samf. hráar skýringar auðhringsins sem á þessa fjölmiðla alla og flytur mál þeirra hérna inni algjörlega hrátt og gagnrýnislaust eins og við höfum öll orðið vör við. Það var ekki svo hjá hv. þm. sem síðast talaði og það er mikilsvert.

Ég vil hins vegar nefna það að hann segir að málið snerti grundvallaratriði. Ég tek undir með honum að það þarf umræður og byggja umræðuna á þáttum sem liggja fyrir. Frumvarp eins og þetta hefði út af fyrir sig verið hægt að leggja fram með venjulegri greinargerð. Sú er eiginlega venjan varðandi lagafrumvörp hér. Það er ekki gert. Það fer fram margra mánaða vinna og skýrsla er lögð fram sem almennt séð hefur verið tekið vel fyrir utan þá sem telja sig eiga að tala hér eingöngu máli Baugs. Þeir hnýta í skýrsluna. En almennt séð hefur skýrslunni verið tekið vel. Þannig að það er heilmikill grundvöllur til þess að byggja ákvörðun á.

[19:00]

Ég áttaði mig ekki á því við ræðu hv. þm. hvaða afstöðu hann ætlar að taka til þessa frumvarps. Mér urðu það vonbrigði að hv. þm. greiddi atkvæði gegn því að umræðan færi fram af því að hann vill umræðuna. Við stöndum frammi fyrir þessu frumvarpi núna. Við verðum hvort sem okkur líkar það betur eða verr að taka afstöðu til þess.

Gagnvart Ríkisútvarpinu þá hef ég aldrei haldið því fram að það eigi að veikja Ríkisútvarpið. Það er ekki hægt að finna þau orð eftir mér höfð, hygg ég, nema það verði þá farið langt aftur frá því að ég var mjög ungur maður. En ég hygg að ekki sé auðvelt að finna slík orð frá mér.