Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:00:48 (7419)

2004-05-03 19:00:48# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Er það ekki réttur skilningur hjá mér að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað í þá veru að Ríkisútvarpið skuli gert að hlutafélagi? Og er það ekki réttur skilningur hjá mér að innan Sjálfstæðisflokksins á Alþingi sé ríkur vilji til að fara þá leið? Er það ekki líka réttur skilningur hjá mér að uppi séu raddir um að skerða auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins? Er það ekki líka réttur skilningur hjá mér að það hafi komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra að þeir ætli að beita sér fyrir því að afnotagjöld Ríkisútvarpsins verði afnumin og færð inn í annað form sem margir telja að gæti skert eða veikt fjárhagslega stöðu Ríkisútvarpsins? Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um það að allir þessir þættir séu í óvissu?

Um grundvallaratriðin sem þetta mál byggir á erum við sammála. Hvert er það grundvallaratriði sem skiptir mestu máli? Það er lýðræðið og það eru lýðræðisleg vinnubrögð. Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála mér um það að til þess að tryggja lýðræðislega umfjöllun um þetta mál, sem á síðan að taka á og standa vörð um lýðræði í landinu, þurfi að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð? Ég held að það sé rangt að líta þar á einhverja skýrslugerð eða greinargerð með þessu frumvarpi. Spurningin snýst um það að við sem hér erum inni og eigum að taka ákvörðun um þessi efni fáum tóm til að móta okkur upplýsta skoðun. Það gerum við ekki nema með samræðu við samfélagið, Blaðamannafélag Íslands og ýmsa aðila sem koma að þessum málum.

Þetta þykir mér vera grundvallaratriði í þessu máli. Ég kem að þeirri spurningu sem hæstv. ráðherra beindi til mín í síðara andsvari.