Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:11:31 (7424)

2004-05-03 19:11:31# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst fá að geta þess að þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. áðan þá kom í ljós að við erum alla vega sammála um það atriði að eignarhald á fjölmiðlunum skiptir mjög miklu máli fyrir fjölbreytileikann og lýðræðislega umræðu, svo að ég get tekið undir það að um það erum við sammála og hugsanlega ýmislegt margt annað sem varðar frumvarpið sem hér til umræðu og ágæta skýrslu.

Ég sagði hins vegar ekki, herra forseti, að rekstrarformið skipti engu máli. Ég sagði að að mínu mati skipti það ekki öllu máli fyrir rekstrarlegar og fjárhagslegar forsendur Ríkisútvarpsins.

En orð mín varðandi auglýsingamarkaðinn má fyrst og fremst rekja til þess að menn hafa haldið því fram að með því inngripi inn í þá samþjöppun sem núna er á fjölmiðlamarkaðnum séu ekki rekstrarforsendur, ekki rekstrargrunnur lengur fyrir því að reka einkareknar sjónvarpsstöðvar. Hagsmunirnir sem við stefnum að eru að tryggja lýðræðislega umræðu og fjölbreytni. Ef raunin er hins vegar sú þá getum við alveg hugsað okkur að við leyfðum okkur að hafa þá framtíðarsýn að til lengri tíma litið tryggjum við samkeppnina við Ríkisútvarpið innbyrðis milli þeirra aðila sem reka ljósvakamiðlana með greiðari aðgangi þeirra og meiri hlutdeild á auglýsingamarkaði en verið hefur.

Samtök auglýsenda hafa fagnað Ríkisútvarpinu inn á auglýsingamarkaði vegna samkeppninnar við einkarekna aðila. En með breyttu fyrirkomulagi, þegar við erum búin að setja reglur sem takmarka eignarhald á fjölmiðlunum, þá er umhverfið bara annað. Ég leyfði mér, herra forseti, í ræðu minni hér um þessa ágætu skýrslu að hafa ákveðna framtíðarsýn um það hvaða breytingar þetta mundi fela í sér og hvernig við gætum hugsanlega brugðist við þeim, sérstaklega með það fyrir augum að tryggja áfram samkeppni á þessum markaði, meðal annars til hagsbóta fyrir neytendur og auglýsendur.