Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:36:56 (7428)

2004-05-03 20:36:56# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það var fróðlegt að heyra hv. þm. Framsfl. tala um prinsipp og U-beygjur. Hvar eru prinsipp Framsfl. í málinu? Framsfl. hefur ekki einu sinni sjálfstæðan vilja í málinu, hann tekur beinlínis við forskriftinni beint úr Stjórnarráðinu. Hv. þm. Hjálmar Árnason ætti að sjá sóma sinn í því að rifja frekar upp fyrir hv. þingheimi þær afstöður sem Framsfl. hefur áður haft í þessum efnum. Þær hafa allar gufað upp. Það er ekkert eftir af þeim.

Hv. þm. Hjálmar Árnason las upp úr ræðu minni. Hann ætti kannski að reyna að rifja upp af hvaða tilefni hún var flutt. Hún var flutt þegar það lá fyrir skýrsla um gríðarlega samþjöppun á matvörumarkaði og það var rökstuddur grunur um að menn hefðu misneytt þá afstöðu.

Ég tók málið upp í þinginu. Hverjir mótmæltu því? Ráðherrar Framsfl.