Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:43:57 (7434)

2004-05-03 20:43:57# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:43]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég held að í skynsamlegri umræðu, rólegri og yfirvegaðri, værum við hv. þm. Hjálmar Árnason miklu meira sammála en hér lítur út fyrir.

Það er háttur Framsfl. í ríkisstjórn að sveigja sig að því að vera í ríkisstjórninni, það er markmið númer eitt að vera í ríkisstjórninni og njóta þeirra kosta sem kjötkatlarnir gefa. Þetta er kjötkatlaflokkur. Það má til sanns vegar færa með þeim hætti að bera ummæli hv. þm. --- af því að verið var að lesa úr ræðum áðan --- saman við ummæli fulltrúa Framsfl. í umræðunni 1995, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið þannig í íslenskri fjölmiðlun og er nú orðið svo að þrír stórir aðilar eru í fjölmiðlum á Íslandi. Það er Íslenska sjónvarpsfélagið og Frjáls fjölmiðlun, það er Morgunblaðið og það er Ríkisútvarpið. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að samkeppni sé ekki fullnægt meðan menn hafa þá stefnu að reka hér ríkisútvarp og ef menn standa almennilega að því.``

Þetta var hv. þm. Jón Kristjánsson. Hann sagði allt annað í dag vegna þess að ríkisstjórnarþátttakan var í veði, vegna þess að kjötkatlapólitíkin blífur í Framsfl.