Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:47:28 (7437)

2004-05-03 20:47:28# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:47]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Þó að Framsfl. sé ekki mjög stór þá er hann þó það stór að erfitt getur verið að gera sér grein fyrir skoðun allra flokksmanna. Nú kann að vera að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson tali af þeirri reynslu að hann geti í einum snarsnúningi hringt í félagsmenn sína, flokksbundna félaga í Frjálsl. (MÞH: Ég er í góðu sambandi við mína flokksmenn.) Þótt Framsfl. sé ekki mjög stór þá er erfitt að ná í alla flokksmenn og spyrja þá um skoðun þeirra á þessu máli.

Ég dreg ekki í efa að í röðum framsóknarmanna megi finna einhverja sem hafi efasemdir, sérstaklega þegar málið hefur verið blásið upp og afbakað í umræðunni, t.d. hér í dag, eins og raun ber vitni. Hins vegar held ég að það sé einfaldast að svara hv. þm. með því að við skulum spyrja að leikslokum. Mál koma fram, þau fá umræðu og síðan eru þau afgreidd með atkvæðagreiðslu. Spyrjum að leikslokum.