Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:48:27 (7438)

2004-05-03 20:48:27# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til að staldra við og segja: Við skulum spyrja að leikslokum í þessu máli.

Ég tel að hér sé ríkisstjórnin að gera mjög stór og afdrifarík mistök og í þann veginn að fara fram með frv. sem verður mjög óvinsælt, ekki bara í þingsölum heldur líka meðal þjóðarinnar. Ég tel að þetta frv. verði upphafið að ferli sem ég tel að geti orðið mjög varasamt. Hér er farið út í mjög vandasama hluti að illa ígrunduðu máli. Ég held að það hljóti að vera mikið umhugsunarefni fyrir báða stjórnarflokkana, þingflokka beggja stjórnarflokkanna, að þessi mál skuli einmitt ekki hafa verið krufin til mergjar í flokkum þeirra.

Ég mundi a.m.k. ekki vilja fara út í það fúafen sem mér sýnist stjórnarflokkarnir vera að fara út í núna, án þess að hafa rætt þetta mál mjög vandlega í flokki mínum. Þótt hann sé ekki stór þá hefði ég gefið mér lengri tíma en örfáar vikur til að ræða þetta mál til hlítar, áður en ég færi með það hingað.