Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:17:16 (7446)

2004-05-03 21:17:16# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi tímann og hvort skoða eigi málið yfir sumartímann. Það er rétt að við lögðum fram tillögu á fundi með forseta um hvort hægt væri að fá upp gefið eða hvort fá mætti umræðu á fundi þingflokksformanna um hvort þinghaldið stæði til mánaðamóta maí/júní. Við því fengust lítil viðbrögð. Vonandi getur hæstv. forseti þingsins greint betur frá þeirri umræðu.

Stjórnarandstaðan, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon m.a., spurði sérstaklega um hverjir starfshættirnir ættu að vera á þessu vori áður en hér var kosið um afbrigði. Við því fengust ekki skýr svör og ég hygg að stjórnarandstaðan hefði metið það við atkvæðagreiðslu um afbrigðin á hvern veginn það svar lá. Hins vegar fengust engin skýr svör um það.

Í ræðu minni áðan sagði ég að ég sæi ekki að allt væri að fara á hliðina út af rekstri fjölmiðlanna að undanförnu, þess vegna sæi ég ekki að það lægju þau lifandis ósköp á að afkasta þessu nú á þessu vori, það væri ekkert að fara á hliðina. Þess vegna mætti taka sér tíma og vinna málið vel. Ég sagði einnig að ef það yrði gert þá teldi ég að um málið mætti ná miklu betri sátt en stefnir í nú, miklu betri sátt. Það er eins og hv. stjórnarliðar hafi ekkert með neina sátt að gera og vilji enga sátt í málinu. Það á bara að keyra áfram á þeirri merinni sem sett var undir þetta mál. Það er nákvæmlega þannig. Afstaða okkar er skýr að þessu leyti.

Varðandi þáltill. þá liggur algerlega fyrir að við vildum kanna þetta mál gaumgæfilega. Ég tók það fram og held að fleiri ræðumenn hafi tekið það fram í umræðunni í desember að það væri ekki fyrir fram ávísun á lagasetningu.