Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:44:58 (7452)

2004-05-03 21:44:58# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:44]

Mörður Árnason (andsvar):

Mér þykir nokkuð langt seilst hjá hv. þm. sem hér talaði síðast að telja alla þá í landinu bandamenn sína sem gjalda varhuga við því að stórt fyrirtæki eins og Baugur eigi svo mikið í Norðurljósum og svo mikið í fjölmiðlamarkaðnum sem raun ber vitni. Það hafa margir sagt það. Ég skal segja það hér hv. þingmanni til ánægju og gleði að ég geld varhuga við. Ég tek líka mark á því sem Baugur sjálfur segir um það, og tel að við eigum að virða þá menn sem þar sitja þess að þeir standi við orð sín, um að þeir ætli með þetta fyrirtæki á markað eftir að þeir hafa verið að stokka það upp og reyna að bjarga því.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm.: Hvar var hans frelsishugur og hin mikla barátta fyrir lítilmagnann þegar Ísfilm átti að verða til, þegar Stöð 2 eignaðist þriðjung í DV 1995, þegar Morgunblaðið og Stöð 2 ætluðu að rugla saman reytum sínum 1995--1997 og þegar DV og Skjár 1 runnu saman eða ætluðu að renna saman 2000--2003? Hvar var hv. þingmaður þá?