Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:52:57 (7460)

2004-05-03 21:52:57# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:52]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá dásamlegi kafli í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals sem laut að áhrifum eigenda á fjölmiðla er auðvitað giska góð lýsing á því hvernig Sjálfstfl. hefur beitt sér gagnvart Ríkisútvarpinu. En hv. þingmanni stoðar ekki að vitna til Evrópuráðsins því Páll Þórhallsson lögfræðingur hefur í Morgunblaðinu gert ágæta grein fyrir málinu undir fyrirsögninni: Helgar tilgangurinn meðalið? Enda er málið þannig að þessum lögum er beint gegn einu fyrirtæki og einu fyrirtæki aðeins sem hv. þingmaður og félagar hans í Sjálfstfl. virðast hafa á heilanum og það eru vond lög og það eru ólög sem sett eru afturvirk gegn einu fyrirtæki, hv. þm. Það er vandséð hvernig við nytum þeirrar fjölbreytni í fjölmiðlun sem við njótum ef markaðsráðandi fyrirtæki í gegnum árin og áratugina hefðu ekki verið fáanleg til að leggja fé, reynslu og þekkingu í fjölmiðlana.