Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:55:23 (7462)

2004-05-03 21:55:23# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:55]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef það ber að lesa ræður manna svona þá voru þetta náttúrlega ótrúlegar dylgjur í garð blaðamanna Morgunblaðsins hjá hv. þm. Halldóri Blöndal hér áðan.

Nei, herra forseti. Ég lít svo á að starfsmenn, hvort heldur Ríkisútvarpsins eða Baugs, reyni nú heldur að hrista af sér þau afskipti sem eigendur þessara miðla kunna að hafa og við njótum sem betur fer nokkuð sjálfstæðrar fréttamennsku í þessu landi.

Það er hins vegar alveg ljóst að þau fyrirtæki sem hér á að setja lög á sölsuðu ekki eitthvert stórveldi undir sig heldur voru þau hirt upp úr gjaldþroti vegna þess að það voru ekki forsendur fyrir rekstri þeirra. Það er mótsögn og þversögn í sjálfu sér, hv. þm. Halldór Blöndal, að ætla að auka fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi með því að banna stórum hópi manna og fyrirtækja að leggja fé sitt, reynslu og þekkingu í að veita ríkinu samkeppni á ljósvakamarkaði. Það er enginn að sækja um það að fá að reka sjónvarpsstöð. Það er enginn að biðja um það að fá að leggja peninga í Skjá 1. Það hefur enginn viljað fara inn á þennan markað. Og af hverju er þá verið að reka menn út af honum?