Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:26:57 (7471)

2004-05-03 22:26:57# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn sviptur prentfrelsi. Ef menn vilja nota prentfrelsi þurfa þeir að lúta þeim hræðilegu kröfum að reka ekki jafnframt sjónvarpsstöð. Eru það einhverjar ofboðslegar kröfur? Það geta allir notað prentfrelsi sitt. Þetta er ótrúlegur útúrsnúningur eða vanþekking, finnst mér.

Allir þeir þættir sem síðasti hv. ræðumaður nefndi til sögunnar til að reyna að gera þetta frv. tortryggilegt standast ekki. Hann sagði að fyrirtæki af þessu tagi gætu ekki verið á verðbréfaþingi eftir að lögin væru sett. Slík fyrirtæki með slíka annmarka eru á verðbréfaþingi úti um allan heim. Því ekki hér? Af hverju sér hv. þm. alla þessa erfiðleika þegar við erum að skapa sömu aðstæður og aðrir búa við annars staðar þar sem markaður er frjáls? Hvers vegna vex honum þetta svona skyndilega mikið í augum?

Ég vakti athygli á því hverjir sitja í útvarpsréttarnefnd. Ég sé ekki betur en að flokkarnir hér séu sæmilega varðir hvað það varðar. Kjartan Gunnarsson er formaður frá 1985. Ég hef aldrei heyrt að það væri ágreiningur um það. Ég hef aldrei heyrt að störf hans væru gagnrýnd (Gripið fram í: Nú?) í þessari nefnd, aldrei heyrt það. (MÁ: Þá ertu bara heyrnarlaus.) Og þú ert ágætlega kurteis, hv. þm. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir.) Það reyndar kemur ekki á óvart með þennan hv. þm. Árni Gunnarsson, fyrrum þingmaður, Bessí Jóhannsdóttir sagnfræðingur, Björn Ingi Hrafnsson skrifstofustjóri, Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, Kristín B. Pétursdóttir lögfræðingur og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður. Ég man ekki til þess að hafa séð opinberlega gagnrýni á störf þessarar nefndar og ég vænti þess að menn sem kunna sig sæmilega í kurteisi komi þá með þá opinberu gagnrýni sem þessi nefnd hefur hlotið. Ella sitja þeir upp með þá skömm sem þeir eiga skilið.