Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:31:23 (7473)

2004-05-03 22:31:23# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:31]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég hef fylgst hér í dag af mikilli athygli með umræðunni um frv. um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það sem stendur upp úr þegar liðið er fram á kvöldið er að ég hef ekki enn áttað mig á því hvers vegna Samf. sem árum saman --- eins og hefur verið vísað til hér í dag og sést í gömlum þingræðum --- hefur lagt sig fram við og lagt áherslu á að brugðist yrði við samþjöppun í viðskiptalífinu almennt finnst gilda allt önnur sjónarmið þegar kemur að fjölmiðlamarkaðnum og fyrirtækjum í fjölmiðlarekstri.

Það er athyglisvert að fara aðeins til baka í tímann. Mig langar í tengslum við þetta að vísa í orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún skrifaði á heimasíðuna sína í september 2002. Þar segir þingmaðurinn, með leyfi forseta:

,,Á kjörtímabilinu höfum við lagt þunga áherslu á að nýta kosti markaðarins í almannaþágu, en tryggja um leið heilbrigðar leikreglur og öfluga samkeppni í atvinnulífi og á fjármálamarkaði.``

Síðan segir hv. þm. áfram, með leyfi forseta:

,,Við jafnaðarmenn berjumst gegn samþjöppun valds og fjármagns sem leitt hefur til fákeppni í stórum atvinnugreinum.``

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði í umræðu á Alþingi 19. nóvember 2003 þegar rætt var um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, með leyfi forseta:

,,Það hlýtur að vera hlutverk okkar á Alþingi að tryggja réttlátar og skýrar leikreglur hvað varðar fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn rétt eins og aðra þætti. Það er okkar að móta leikreglurnar og hafa eftirlitið og annarra að vinna úr því. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Ég spyr, herra forseti: Hvað er það sem hefur breyst frá þeim tíma að hv. þm. Samf. Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir viðhöfðu þessi orð, annar hv. þm. á heimasíðunni sinni almennt um samþjöppun í viðskiptalífinu og hinn hv. þm. í þingræðu um samþjöppun í rekstri fjölmiðla?

Annað sem vekur athygli í þessari umræðu hér í dag er öll áherslan sem lögð er á aðdragandann að frv., aðdragandann að því að frv. er lagt fram. Áhersla er lögð á að skýrslan hafi ekki verið birt og henni ekki dreift með hæfilegum fyrirvara og að ekki hafi gefist nægjanlegt svigrúm og nægjanlegur tími til umræðunnar. Mig langar af því tilefni til að minna á að hér var rædd í heilan dag skýrsla fjölmiðlanefndarinnar sem fylgir sem fylgiskjal með þessu frv. og við umræðuna hér í dag er gefinn kostur á því að halda áfram þeirri umræðu.

Því er líka haldið fram að ætlunin sé að keyra frv. í gegnum þingið á engum tíma, að það eigi ekki að leyfa umræðu um málið. Ég vil árétta, ef ég fæ að segja bara fyrir mitt leyti, að ég er tilbúin til að sitja fram á mitt sumar til að halda áfram að ræða þetta mál og ég geng út frá því að aðrir stjórnarliðar séu sama sinnis, ætlunin sé að fá góða umræðu, bæði hér á þingi og sömuleiðis áframhaldandi úti í samfélaginu til að fá fram hin ólíkustu sjónarmið.

Burt séð frá þessum viðhorfum verð ég að segja að í umræðunni hafa fallið mjög stór og þung orð, einstaklingar ýmsir hafa setið undir miklum aðdróttunum og mér finnst þannig málflutningur síst til framdráttar eða vitnisburður um málefnalega og lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Mér finnst alveg óþarfi, herra forseti, að vera alltaf að tiltaka inn í þessa umræðu ákveðna einstaklinga og ákveðin fyrirtæki. Ég kýs í umfjöllun um málið, bæði hér í þingsal og líka þegar málið er komið til allshn., að reyna að fjalla um þetta almennt og út frá tilteknum prinsippum.

Það sem maður hefur heyrt í þeim sem hafa talað hérna í dag úr hópi stjórnarandstæðinga sumra skil ég svo að í rauninni sé því ekki lengur haldið fram að almennt séu ekki reglur í Evrópuríkjum og í Bandaríkjunum sem takmarka eignarhald á fjölmiðlum. Ég held að nokkur sátt sé um að svo sé og að við séum eitt fárra ríkja sem ekki hafa gripið til þess að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum.

Mér hefur líka skilist, herra forseti, að það sé nokkuð víðtæk samstaða hér á þingi um það sem meginmarkmið að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum og standa vörð um tjáningarfrelsi.

Í þriðja lagi, herra forseti, hefur mér heyrst vera víðtæk samstaða milli stjórnmálaflokka og líka hagsmunasamtaka blaðamanna um nauðsyn þess að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um útfærslu slíkra reglna og slíkrar löggjafar. Það hlýtur að vera þess vegna sem maður hlustar grannt eftir raunverulegum vilja þingflokks Samf., sérstaklega í ljósi þess sem þingmenn Samf. hafa sagt í gegnum árin um nauðsyn þess almennt í viðskiptalífinu að sporna við samþjöppun og hringamyndun.

Ég velti því líka fyrir mér, herra forseti, hvort við getum ekki almennt fallist á að það skipti máli fyrir tjáningarfrelsið, lýðræðislega umræðu og fjölbreytni hverjir eigi fjölmiðlana. Í umræðunni hér um fjölbreytni hafa þingmenn gjarnan bent á að við eigum kost á fjölbreyttu efni. Það sem ég er að reyna að átta mig á er hvort einhver hér á þingi sé raunverulega þeirrar skoðunar að það skipti engu máli hvert eignarhaldið á fjölmiðlunum sé.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson tók í ágætri ræðu sinni fyrr í kvöld dæmi frá Bandaríkjunum um vopnasala sem vildi eignast fjölmiðla. Mér fannst það mjög lýsandi. Þá ruku menn upp til handa og fóta. En við getum alveg séð fyrir okkur fyrirtæki í öðrum rekstri en vopnasölu sem fá menn aðeins til að hrökkva í gírinn. Væri ekki hætt við að umræðan yrði einsleit ef allir fjölmiðlarnir væru á sömu hendi? Ég held að það sé sannanlega óumdeilt andstætt hagsmunum alls almennings og rétti almennings til fjölbreytni í upplýsingum að fjölmiðlarnir séu í jafnmiklum mæli og þeir eru nú á sömu hendinni. Mér finnst óeðlilegt að eitt fyrirtæki geti stýrt því að eins miklu marki og nú er hvað við lesum, heyrum og sjáum.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að skoðanamyndandi þáttur fjölmiðla í lýðræðinu er allt of stór. Fjórða valdið er allt of sterkt í samfélagi okkar ef við ætlum ekki að spyrna fótum við því að samþjöppunin sé jafnmikil og hún hefir orðið á liðnum missirum.

Mig langar í þessu samhengi, herra forseti, að vísa til Reykjavíkurbréfsins í gær til samanburðar þar sem tekið var hvernig við setjum í löggjöf okkar reglur sem setja valdi stjórnmálamanna mörk. Mér fannst það ágæt samlíking og það var ekki vegna þess að við ætlum einhverjum að misbeita valdi sínu, hvorki að við gerum þeim upp að þeir séu eða ætli að gera það einhvern tíma. Þetta eru reglur til að taka af allan vafa og til að standa vörð um tiltekinn trúverðugleika.

Mig langar, herra forseti, að leggja áherslu á það að þetta frv. sem ekki er ætlunin að flýta hér í gegnum þinglega meðferð (Gripið fram í: Nú?) fái vandaða og faglega umfjöllun, bæði innan þings og málefnalega umræðu úti í samfélaginu á sama tíma. Ég held að þegar við fjöllum um þetta mál í allshn. þurfum við að horfa til þess hvaða afleiðingar það hafi að lögfesta svona reglur um eignarhald á fjölmiðlunum og reyna að átta okkur á því hvaða afleiðingar það hefur fyrir fyrirtæki á markaði eins og hér, í fámenninu og vegna smæðar markaðarins. Hér hafa verið uppi hugmyndir um að þetta kollsteypi og kippi rekstrargrunninum undan rekstri Norðurljósa. Aðrir hafa bent á og vísað í viðtal við stjórnarformann þess fyrirtækis sem á stærsta hlutann þar að þau geti alveg borið sig þó að þessi uppskipting verði. Þetta vona ég að verði eitthvað sem komi skýrar fram og við getum áttað okkur á í allshn. þannig að við gerum okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar þessar reglur hafa sem ætlað er að takmarka eignarhaldið.

Annað sem ég tel að við þurfum líka að gefa sérstakan gaum í allshn. og ábendingar hafa komið um frá ágætum lögfræðingum og prófessorum úti í samfélaginu er bráðabirgðaákvæðið. Við horfum þá til stjórnarskrárinnar og sjáum hvort ákvæðið eins og það er sett fram standist ákvæði hennar. Ég held að sjónarmið um það og ýmislegt annað sem lúti að efni frv. eigi eftir að koma fram á fundum allshn. og ég geri ráð fyrir að það fái þar góða umfjöllun.