Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:42:45 (7474)

2004-05-03 22:42:45# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Það er orðið svolítið þreytandi að hlusta á enn eina ræðuna frá hv. þingmönnum framsóknarmanna sem eru allar upplesnar, sömu gömlu greinar eða ræður hv. þingmanna Samf., og ég ætla ekki að endurtaka einu sinni enn hverjir það eru. Þetta hefur greinilega vakið óskipta athygli framsóknarmanna. Ég segi ekki annað en það, virðulegi forseti, að hv. þingmönnum Framsfl. hefði verið nær að lesa betur hin ýmsu tilmæli Evrópuráðsins og skoða betur frv. sem þessi ágæti flokkur samþykkti út úr þingflokki sínum án nokkurra mótatkvæða --- vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var ekki á landinu --- og samþykkir þar af leiðandi að sé lagt fram í þessari mynd.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, kannski ekki síst vegna þess að hún er löglærð: Telur hún yfir allan vafa hafið að þetta frv. feli í sér afturvirkni, eins og fram hefur komið gagnrýni á að það geri, þrátt fyrir að í því felist heimild til að afturkalla útgefin útvarpsleyfi áður en þau renna út? Telur hv. þm. yfir allan vafa hafið, úr því að hún samþykkti frv. út úr þingflokknum, að þetta feli í sér afturvirkni? Ekki trúi ég því, virðulegi forseti, að hv. þingmenn Framsfl. telji rétt að leggja hér fram frv. sem hugsanlega feli í sér afturvirkni eða að þeir ætli að skoða það á síðari stigum og hefja það yfir allan vafa. Á það ekki að gerast áður, virðulegi forseti?

Ég spyr að þessu og ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið til greina af hennar hálfu að fara aðrar vægari og mildari leiðir, eins og m.a. er bent á í grein sem Páll Þórhallsson ritar í Morgunblaðið í gær.