Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:44:40 (7475)

2004-05-03 22:44:40# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:44]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki skrýtið þó að Samf. svíði þegar rifjuð eru upp orð þingmanna flokksins ... (Gripið fram í.) Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir grípur hér fram í og segist vera orðin leið á þessu. Hún verður þá bara að halda áfram að vera það, hv. þingmaður.

Við komumst ekki hjá því í þessari umræðu, þegar verið er að hlusta eftir því hver afstaða Samf. er, hvað hún vilji gera í þessu máli, að rifja upp nokkurra mánaða gömul ummæli. Raunveruleikinn er sá að þessi ágæti flokkur hefur sett sig upp á móti því og sagt að taka eigi á samþjöppun í viðskiptalífinu. Spurning mín er: Af hverju gegnir öðru máli með fjölmiðlamarkaðinn?

Til viðbótar því að hv. þm. (Gripið fram í.) spyr áðan hvernig þetta frv. hafi verið afgreitt út úr þingflokki Framsfl. langar mig að geta þess, eins og hefur komið fram í máli hæstv. forsrh., að frv. sem kom út úr ríkisstjórninni var ekki það frv. sem upphaflega var lagt fram. Það hefur hæstv. forsrh. sagt sjálfur. Frv. tók breytingum þar og við hljótum að gera ráð fyrir því við þinglega meðferð ef við á annað borð ætlum að sýna Alþingi einhverja virðingu að enn sé gert ráð fyrir því að það jafnvel taki einhverjum breytingum í meðförum þingsins og nefndarinnar.