Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:46:00 (7476)

2004-05-03 22:46:00# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:46]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt satt best að segja að lagasetning hjá ríkisstjórninni ætti að vera það vönduð að það væri hafið yfir allan vafa að frv. fælu í sér afturvirkni. Varðar mig þó engu hvaða breytingar hafa verið gerðar á þessu frv. í fyrri meðferðum ríkisstjórnarinnar. Mér kemur það ekkert við. Ég geri þá kröfu, virðulegi forseti, að þegar frv. eru lögð fyrir hið háa Alþingi sé búið að hefja það yfir allan vafa innan ríkisstjórnarinnar og hjá þeim ráðuneytum sem í hlut eiga og hafa unnið og undirbúið frv. að þau a.m.k. brjóti örugglega ekki í bága við stjórnarskrá. Það á greinilega að skoða eftir á, virðulegi forseti.

Ég spurði líka hv. þingmann hvort hún hafi ekki talið koma til greina, eins og Páll Þórhallsson bendir á í ágætri grein í Morgunblaðinu í gær, að leita fyrst annarra vægari leiða eins og hv. þm. veit að Samf. hefur lagt til. Hún hefur lagt það til í tillögum sem liggja fyrir þinginu og vill að þær leiðir verði reyndar áður en farið verður út í alvarlega íhlutun inn í þessa starfsemi eins og hér er verið að leggja til. Tillögur Samf. hvað varðar samþjöppun á markaði gilda allar enn og öll þau orð sem hér hefur verið vitnað til standa óhögguð.