Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:55:12 (7482)

2004-05-03 22:55:12# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:55]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði: Fjórða valdið er orðið allt of sterkt. Vegna þess að hv. þm. er málefnaleg vil ég trúa að það hafi verið mismæli og vonast til að þingmaðurinn staðfesti í ræðu á eftir að svo hafi verið. Ég minni samt hv. þingmanninn á að hlutverk fjórða valdsins er fyrst og fremst að veita stjórnvöldum aðhald því að almenningur getur aðeins veitt okkur aðhald á fjögurra ára fresti. Fyrirtækjum á markaði veita neytendur hins vegar aðhald á hverjum degi með innkaupum sínum, ekki aðeins á fjögurra ára fresti.

Stjórnvöld hafa hins vegar eftirlit með starfsemi fyrirtækja á markaði og vilji menn koma í veg fyrir óheilindi af hálfu markaðsráðandi fyrirtækja er nærtækast að setja reglur um fjárhagsleg samskipti þeirra og stjórnmálaflokkanna sem hafa yfir Samkeppnisstofnun og öðrum eftirlitsstofnunum að segja.

Ég verð að spyrja hv. þingmann: Hvar í veröldinni er markaðsráðandi fyrirtækjum bannað að eiga í ljósvakamiðlum? Er það ekki rétt, hv. þingmaður, að ástæðan fyrir því að takmarkanir eru á slíkum leyfum í öðrum löndum sé sú að þar eru það takmörkuð gæði? Hér á Íslandi eru til ráðstöfunar sjónvarpsrásir fyrir þá sem hafa vilja og hér gengur sjónvarpsstöð og hefur gengið manna á meðal í leit að fjármagni, og gengið illa vegna þess að staðreyndin er sú að hér hefur fremur skort á það að menn vildu leggja fjármagn í sjónvarpsrekstur en hitt. Þess vegna er fásinna að ætla að tryggja fjölbreytni með því að banna þó þeim fáu aðilum sem tilbúnir hafa verið að leggja fé í þennan rekstur að gera það. Það mun einfaldlega styrkja einokunaraðstöðu ríkissjónvarpsins á þessum markaði og það kann að vera hið pólitíska markmið sem Sjálfstfl. hefur í þessum leiðangri. Það er hins vegar illskiljanlegt að Framsfl. skuli vera honum svona eftirlátur í þessu efni.