Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:58:41 (7484)

2004-05-03 22:58:41# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:58]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég harma yfirlýsingar hv. þingmanns hér því að hún staðfesti það í ræðu sinni að stjórnvöldum í þessu landi þyki fjórða valdið vera orðið of sterkt, gagnrýnin á sig og aðhaldið of mikið og nauðsynlegt að setja við því skorður. Það er ekki hægt að skilja ræðu hv. þingmanns öðruvísi.

Ég spurði hv. þingmann hvar í veröldinni væru dæmi þess að markaðsráðandi fyrirtækjum væri bannað að eiga í fjölmiðlafyrirtækjum. Ekkert dæmi gat þingmaðurinn nefnt. Það getur vel verið, hv. þingmaður, að aðrir aðilar en markaðsráðandi geti rekið sjónvarp hér í landinu. Þeim er það frjálst, það eru sjónvarpsrásir til ráðstöfunar. Það eru sjónvarpsfyrirtæki á markaðnum sem fegin yrðu að fá nýtt fjármagn inn í rekstur sinn til að styrkja hann og efla. Rekstur Norðurljósa varnar því ekki. Það er þess vegna engin ástæða til að banna þeim aðilum sinn rekstur þó að menn vilji auka enn á fjölbreytni. Þvert á móti.