Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:01:01 (7486)

2004-05-03 23:01:01# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:01]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Í dag, 3. maí, er dagur sá sem Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt sem alþjóðlegan dag frjálsrar fjölmiðlunar. Það er nokkuð kaldhæðnislegt að hæstv. forsrh., formaður stjórnmálaflokks sem löngum hefur hagað málflutningi sínum með þeim hætti að ætla mætti að hann ætti einkarétt á notkun hugtaksins ,,frelsi`` skuli einmitt í dag ákveða að tala fyrir frv. sem reisir skorður við eignarhaldi á fjölmiðlum.

,,Ég er frelsisins maður,`` sagði hæstv. forsrh. í ræðu fyrr í dag. En hæstv. forsrh. kvartar sáran undan því að í umræðunni hafi ásetningur hans verið gerður tortryggilegur og því haldið fram að frv. sé af gremju stefnt gegn óvinum ráðherrans. Framlagning þessa frv. þarf auðvitað að vera hafin yfir allan vafa, virðulegi forseti, um að þar búi að baki annar ásetningur en sá sem hæstv. ráðherra hefur gefið upp. Þegar litið er til þess að Norðurljós eru eina fyrirtækið sem verður fyrir áhrifum við lagasetningu þessa er ekki einfalt að trúa því að málið sé eingöngu lagt fram til að ná fram réttlæti og fjölbreytni í fjölmiðlun, eins og hæstv. forsrh. virðist vilja vera láta.

Frú forseti. Það er klifað á því að frv. sé ætlað að auka fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun. En það hefur ekki farið mikið fyrir því í umræðunni, það sem af er, hvað menn meina með þessu fjölbreytnihugtaki. Er þetta kannski bara þægilegt hugtak sem hefur yfir sér jákvæðan blæ og því gripið til þess nú, svo fólk haldi að samþykkt frv. forsrh. færi okkur betri heim hvað þetta varðar?

Ég verð að segja að ég ekki ánægð með stöðuna í þessu tilliti eins og hún er í dag. Í mínum huga er dagskrárframboð hér á landi fremur einhæft, bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi. Þær stöðvar virðast allt of margar sem varla hafa þrek til að gera meira en setja annan geisladisk í spilarann. Í sjónvarpi sakna ég sjálfstæðrar dagskrárgerðar. Ég sakna fjölbreyttra fréttaskýringaþátta, heimildamynda, fræðsluefnis um menningu okkar jafnt sem annarra þjóða, þjóða í fjarlægum heimshlutum. Ég er orðin langþreytt á bandarískum sápum og þrái innlent leikið efni og leikið efni frá öðrum menningarheimum en þeim engilsaxneska.

Það er ekki fjölbreytni af þessu tagi, virðulegi forseti, sem við höfum fjallað um síðustu daga, öðru nær. Okkur er stillt upp við vegg og við fáum eingöngu að ræða fjölbreytni í eignarhaldi. Að þessu leyti er ég sammála höfundum skýrslunnar sem hæstv. menntmrh. bað um að yrði gerð. Þeir leggja höfuðáherslu á það að fjölmiðlum beri að tryggja aðgengi almennings að dagskrárefni sem endurspegli mismunandi menningarleg og pólitísk sjónarmið. Það er kjarni málsins í umræðunni um fjölbreytni í fjölmiðlum. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa ekki gert neina tilraun til þess í ræðum sínum í dag að beina umræðunni inn á þá braut, því miður.

Virðulegur forseti. Það eru mörg atriði í þessu frv. sem skoða þarf nánar. Áður en ég fer að telja þau upp eða líta frekar á þau vil ég segja að það ergir mann óneitanlega við umræðu um þetta mál að umræðan um skýrslu hæstv. menntmrh. skuli þá þegar hafa verið lituð af þegar framkomnu frv. forsrh. Það gefur manni ekki til kynna að ríkisstjórnin hafi viljað öfluga skapandi umræðu um skýrslu ráðherrans. Það gefur manni til kynna að meiningin hafi verið að stýra umræðunni strax inn á þá braut sem frv. lagði. Það er mjög miður, þegar mál af þessu tagi kemur fyrir Alþingi, að ekki skuli gætt að frelsi umræðunnar, að þegar skuli sett á hana höft eða bönd og eins og menn hafa verið að kvarta undan hér í dag. Afgreiðsla málsins var sett í flýtifarveg sem lokar fyrir möguleika okkar á að eiga skapandi umræðu, samtal við aðila á markaði, samtal við fagmenn sem starfa á fjölmiðlunum, samtal sem gæti mögulega leitt af sér niðurstöðu sem allir gætu meira eða minna sætt sig við eða orðið ásáttir um að yrði til bóta.

Í frv. eru, eins og ég sagði, mörg atriði sem þarf að skoða nánar. Ef við værum að vinna af skynsemi mundum við afgreiða málið til nefndar, að öllum líkindum til menntmn. Alþingis, sem síðan mundi senda málið út til umsagnar til allra hagsmunaaðila. Í því ferli væri ljósi varpað á alla vankanta frv. og velt upp öðrum möguleikum til að ná fram sömu eða svipaðri niðurstöðu, a.m.k. til að tryggja fjölbreytni dagskrárframboðs íslenskra fjölmiðla eins og markmiðið er sagt vera.

Frú forseti. Ég get tekið undir með þeim sem gert hafa athugasemdir við að í frv. sé ekki gætt jafnræðisreglu. Það er eitt þeirra atriða sem undir eðlilegum kringumstæðum hlyti að verða skoðað í meðförum nefndar. En vegna þess hvernig mál þetta ber að er eðlilegt að það veki ótta hjá okkur sem sitjum á Alþingi í umboði þeirra sem andæfa ríkisstjórninni og stefnu hennar. Sá ótti er fólginn í þeirri tilfinningu sem við kennum nú, undan sporunum sem eru reknir í síður reiðskjótans. Hér á ekki að vinna af sanngirni og það skelfir mann. Eða hvers vegna er frv. sett fram með þeim hætti að útvarpsrekstur er gerður leyfisskyldur í þessu plaggi en ekki blaðaútgáfa? Hvar er jafnræðisreglan? Hæstv. forsrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að varpa neinu ljósi á það í ræðum sínum í dag þótt hann hafi fengið ótal tækifæri til þess. Þessari spurningu hefur enn ekki verið svarað.

Eða hvernig er hægt að horfa fram hjá því að frv. vegur sannarlega að hagsmunum ákveðins fyrirtækis? Ég spyr hvort ríkisstjórnin sé tilbúin til að ræða gildistökuákvæðið eða ákvæði til bráðabirgða í frv. eða hvort það verði að fara óbreytt í gegn. Ég gæti hugsanlega verið til viðræðu um að gildistakan héldist í hendur við sólarlag núgildandi útvarpsleyfa en ég sé ekki nokkur merki þess að slík umræða eigi upp á pallborðið hjá stjórnarmeirihlutanum. Ég get þó ekki séð að það ætti að vera svo útlátamikið fyrir þingmenn stjórnarmeirihlutans að ræða gildistökuákvæðið þannig að útvarpsleyfi viðkomandi fjölmiðla, sem hafa leyfi í dag, verði látin renna út áður en breytingar frv. taki gildi hjá viðkomandi rekstraraðilum.

Frú forseti. Ég er mjög efins um þá kröfu sem í frv. er, að fyrirtækjum með markaðsráðandi stöðu á öðrum sviðum viðskipta skuli ekki heimilt að eiga baun í bala í ljósvakamiðlum. Ef við fáum svigrúm til að skiptast á skoðunum um þetta atriði þá held ég að finna mætti miklu skynsamlegri niðurstöðu en þá sem frv. gerir ráð fyrir.

Í þessu frv. er heldur ekkert fjallað um innri reglur sem tryggt geti sjálfstæði ritstjórna eða fréttastofa, sem auðvitað er flókið mál í eðli sínu. Maður getur vel ímyndað sér að eigandi og ritstjóri fjölmiðils séu óhjákvæmilega í sama liði og það er spurning hvort nokkuð sé óeðlilegt við að eigandi fjölmiðils og ritstjórn hans myndi með sér bandalag. Þá verður hins vegar eitt að vera ljóst: Almenningi verður að vera ljóst hver er eigandi fjölmiðilsins.

Þarna er ég komin að því, frú forseti, sem mér finnst vega þyngst í umræðunni allri. Ég get ekki annað en furðað mig á því að frv. skuli ekki hafa að geyma nein ákvæði um gagnsæi eignarhalds. Í mínum huga er það algert lykilatriði, í þeim heimi sem okkur hefur verið búinn --- af hverjum? Af ríkjandi stjórnvöldum, nota bene --- að eignarhald fjölmiðlanna sé öllum ljóst og upplýsingar um það aðgengilegar á hverjum tíma. Það er algert frumskilyrði. Á þann hátt einan getur almenningur áttað sig á því hvernig best er að hlusta á viðkomandi fjölmiðil og með hvaða gleraugum beri að lesa viðkomandi blað.

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði við umræðuna um skýrslu menntmrh., sem hér er eiginlega notuð sem skálkaskjól hugmynda í frv. Ég sakna þess að hugmyndafræði lýðræðisins sé gætt við framlagningu þessa máls. Ég get ekki fellt mig við að ekkert samráð skuli hafa verið haft við aðila á fjölmiðlamarkaði eða við fagfélag þess fólks sem starfar við fjölmiðlana, Blaðamannafélag Íslands.

Blaðamannafélagið hefur lýst, með ályktun á aðalfundi sínum, vilja sínum í þessum efnum. Það er ekki á móti lagasetningu en það er ekki sátt við framgang mála. Ég vitna, leyfi forseta, í ályktun aðalfundar Blaðamannafélagsins sem haldinn var fyrir skemmstu en þar segir:

,,Aðalfundurinn hvetur til málefnalegrar umræðu í samfélaginu um eignarhald á fjölmiðlum með mögulega lagasetningu í huga, en efnisatriði fyrirliggjandi frumvarps munu tæplega fá viðunandi umræðu á opinberum vettvangi eigi að samþykkja það sem lög fyrir þingfrestun í vor.``

Ég verð að segja, frú forseti, ég hlýt að taka undir ályktun fundarins hvað þetta varðar. Hér hefur því miður ekki verið efnt til eðlilegrar, lýðræðislegrar umræðu, því miður.

Þá er ég komin, frú forseti, að atriði sem mér er mikið í mun að komist að í umræðunni. Það hefur svo sem örlað á því í þeim ræðum sem haldnar hafa verið í dag, þ.e. málefnum Ríkisútvarpsins. Í mínum huga er mjög miður hvernig formenn stjórnarflokkanna hafa kosið að færa málefni Ríkisútvarpsins inn á borð í þessari umræðu. Með hvaða hætti er það? Jú, með yfirlýsingum um það að nú sé rétti tíminn til að leggja af afnotagjöld Ríkisútvarpsins, þau séu úrelt og finna þurfi afnotagjöldunum annað form. Eitthvert annað form. Ég minnist þess að hafa verið gagnrýnd fyrir að tala alltaf um ,,eitthvað annað`` í þessum stól, sem ég geri reyndar ekki. Ég hef yfirleitt hugmyndir til að leggja í pott vilji ég fara aðrar leiðir en ríkisstjórnarflokkarnir. En nú vilja stjórnarherrarnir, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., gera eitthvað annað við fjármögnun Ríkisútvarpsins en að láta borga afnotagjöld.

Ég fullyrði það, frú forseti, að ég treysti Sjálfstfl. ekki fyrir horn í málefnum Ríkisútvarpsins. Það er á stefnuskrá þess flokks að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Til eru landsfundarsamþykktir fyrir því, samþykktir ungra sjálfstæðismanna og samþykktir Heimdallar. Ekki nóg með það heldur vill yngra fólkið í Sjálfstfl. selja Ríkisútvarpið þegar búið verður að hlutafélagavæða það. Við þekkjum öll þessa sögu um hlutafélagavæðingu ríkiseigna sem eru síðan alltaf seldar, ekki á elleftu stundu, heldur nánast strax eftir að búið er að hlutafélagavæða. Þá er farið í söluferli.

Ég vara alvarlega við því, frú forseti, að í þessari umræðu sé vegið að þeim máttarstólpa Ríkisútvarpsins sem fólginn er í afnotagjaldinu. Ég vil leyfa mér að vitna til greinar sem G. Pétur Matthíasson, starfsmaður Ríkisútvarpsins til margra ára, skrifar í Morgunblaðið í gær, sunnudag, eftir því sem ég held ég muni rétt, en með leyfi forseta þá segir G. Pétur Matthíasson þar:

,,Nú eru uppi hugmyndir um að afnema afnotagjald Ríkisútvarpsins. Með því er vegið að sjálfstæði Ríkisútvarpsins því afnotagjaldið gerir Ríkisútvarpið að fjölmiðli þjóðarinnar en ekki fjölmiðli ríkisins.``

Þessi yfirlýsing G. Péturs Matthíassonar er alveg samhljóða yfirlýsingu nefndar menntmrh. Hvað segir nefndin í kafla 4.3 þar sem fjallað er um lög Ríkisútvarpsins? Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin er sammála um að mikla þýðingu hafi fyrir efni þessarar greinargerðar, að gefa gaum að hlutverki og stöðu Ríkisútvarpsins á íslenskum fjölmiðlamarkaði, enda er ljóst að styrking og efling ríkisútvarps er ein þeirra leiða sem koma til greina til að hamla gegn neikvæðum áhrifum samþjöppunar eignarhalds á fjölmiðlamarkaði.``

Þetta er er afar mikilsverð yfirlýsing og athyglisverð.

Í þessum sama kafla segir jafnframt, sem mér finnst vera lykilatriði í niðurstöðu nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Réttur til innheimtu afnotagjalda styrkir mjög stöðu Ríkisútvarpsins og sjálfstæði``.

Það er lykilatriði fyrir sjálfstæða stöðu Ríkisútvarpsins að neytendur og eigendur Ríkisútvarpsins finni að þeir eigi það, þeir greiði til þess og finni það á eigin skinni og eigin buddu að þeir reki þennan fjölmiðil. Ríkisstjórnin á ekki ríkisútvarpið. Þjóðin á það. Það er einn af máttarstólpum íslenskrar menningar. Þegar stjórnarherrarnir leyfa sér að færa umræðuna um Ríkisútvarpið inn í þessa umræðu eins og þeir hafa gert, að varpa því fram sisvona ábyrgðarlaust að afnotagjöldin séu úrelt þótt þeir hafi engar hugmyndir um hvernig megi leysa málin á annan hátt þá segi ég að þeir standi ekki undir ábyrgð sinni, frú forseti.

Ég mundi segja að ef Ríkisútvarpið yrði sett á fjárlög þá væri það dauðadómur yfir því. Það væri þar með sett undir geðþóttavald stjórnvalda og þá fyrst yrði það fyrir alvöru ríkisstjórnarútvarp. Ástandið er ekki gott eins og það er í dag en það yrði skelfilegt ef Ríkisútvarpið yrði sett á fjárlög. Það er tilfinning mín fyrir þessu því að endanlegt skjól Ríkisútvarpsins er að eigendurnir viti að þeir geti treyst því, eigendurnir finni að þeir eigi þar innhlaup og eigi sinn þátt í þeim trúverðuga fréttamiðli sem Ríkisútvarpið er.

[23:15]

Ég tel verulega þörf á að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins. Ég tel að leysa eigi það undan pólitískum áhrifum ríkisstjórnarflokkanna. Ég tel að losa þurfi það undan pólitísku ráði sem leyfir sér að hafa áhrif á ráðningu fréttamanna og annars starfsfólks. Það verður ekki gert með því að færa málefni þess inn á þetta borð með þeim hætti sem hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafa gert.

Það er mjög athyglisvert, frú forseti, að lesa kafla 6.4.1 í skýrslu nefndar menntmrh. þar sem lagt er til að hugað verði sérstaklega að stöðu Ríkisútvarpsins í þessari umræðu með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Það er einnig athyglisvert að nefndin segir að ástæðan fyrir því að þetta sé nefnt fyrst --- nota bene, þetta er fyrsta leiðin sem sögð er koma til greina til úrbóta, þ.e. að tryggja traust almenningsútvarps eða ríkisútvarp --- sé að sú leið feli ekki í sér neina beina íhlutun í málefni einkamarkaðarins. Hún segir jafnvel í niðurlagi kaflans að það virðist hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd án breytinga á gildandi lögum, að slíkt mundi geta haft ákveðin áhrif á frjálsa markaðinn, einkamarkaðinn, sem hefði ákveðið svigrúm utan þess vallar sem Ríkisútvarpið leikur á. Kafli 6.4.1 er sannarlega athyglinnar virði í skýrslu menntmrh.

Frú forseti. Ég verð að segja að í heildina tel ég á ferðinni gallað frumvarp. Ég tel það ekki gera neina tilraun til að horfa heildstætt á málin. Þar af leiðandi sver það sig í ætt við önnur stórmál þessarar ríkisstjórnar sem sífellt skautar á yfirborði hlutanna og hikar ekki við að beita meirihlutaafli sínu til að forðast lýðræðislega umræðu og lýðræðislega ákvarðanatöku.