Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:23:50 (7490)

2004-05-03 23:23:50# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig einmitt vita að Framsfl. hefði markað sér stefnu varðandi Ríkisútvarpið. Við vitum það öll sem hér erum inni og þjóðin veit það öll að Framsfl. hefur staðið gegn mjálmi Sjálfstæðisflokksins um breytingu á rekstrarformi og veikingu Ríkisútvarpsins. Framsfl. hefur staðið gegn þeim hugmyndum sem Sjálfstfl. hefur haft um málefni Ríkisútvarpsins.

Eins og ég sagði í ræðu minni treysti ég Sjálfstfl. ekki fyrir horn í málefnum Ríkisútvarpsins. Mér finnst því mjög miður þegar Framsfl. leggst við fætur Sjálfstfl. í þessum málum. En nákvæmlega þannig lítur málið út núna.

Af því við erum að tala um að afnotagjaldið eigi að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og við hv. þm. erum sammála um að það beri að tryggja það þá langar mig að ljúka þessu síðara andsvari mínu með því að vitna aftur til orða G. Péturs Matthíassonar sem skrifaði grein í Morgunblaðið um helgina. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Afnotagjaldið er stuðpúði eigenda Ríkisútvarpsins, þjóðarinnar, gagnvart stjórnvöldum sem síðan hafa sín áhrif í gegnum útvarpsráð. Það dugir þeim, þeir þurfa ekki líka að hafa fjárhagslegt vald yfir Ríkisútvarpinu.``

Verum þessara orða minnug, frú forseti. Ég treysti því að þingmenn Framsfl. fari ekki að láta sjálfstæðismenn leiða sig út í þá gildru núna, sérstaklega ekki í umræðu eins og þeirri sem hér fer fram og farið er í með hasti, að búa til málatilbúnað kringum Ríkisútvarpið sem veikt gæti stöðu þess eða tekið frá því sjálfstæðið.