2004-05-04 00:05:51# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:05]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt skilið hjá hv. þm. að það er afstaða mín. Ég tel að það eigi ekki að ljúka afgreiðslu málsins á þessu vori með lagasetningu. Ég tel að það eigi að gefa tíma til þess að menn geti rætt málið í þjóðfélaginu, stjórnmálaflokkunum og þingflokkunum því það er nýtilkomið. Þetta er stórt svið og mörg álitaefni og ábyggilega flestir þingmenn sem hafa ekki kynnt sér öll efnisatriði málsins og margt sem menn eiga eftir að lesa og skoða í þeim efnum og því er óskynsamlegt að ljúka afgreiðslu málsins áður en menn hafa athugað málið til hlítar.

Ég vil bæta því við, herra forseti, að ég tel ekki að menn eigi bara að einblína á þann þátt málsins sem mér finnst um of gert úr að eigendur hafi svo og svo mikil áhrif á framgöngu fréttamanna fjölmiðils. Ég legg ekki trúnað á þær fullyrðingar að fréttamenn, hvort sem þeir eru hjá Stöð 2 eða Fréttablaðinu, gangi erinda eigenda sinna. Ég tel að menn megi ekki tala um þá af svona mikilli lítilsvirðingu og tek eftir því að það talar enginn svona um fréttamenn Morgunblaðsins, enda engin ástæða til.

Það þarf líka að gæta að því að fjölmiðlamenn hafi frelsi frá stjórnmálamönnum. Þeir eiga að veita stjórnmálamönnum aðhald en ekki öfugt. Ég held að við megum aldrei gleyma því að stjórnmálamennirnir eru ekki þeir sem eiga að segja fréttamönnunum fyrir verkum. Þess vegna verða stjórnmálamenn að gæta hófs í ummælum sínum og gagnrýni á íslenska fjölmiðla.