2004-05-04 00:09:41# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:09]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fáu að bæta við það sem fram hefur komið. Ég vil þó segja, virðulegi forseti, að umræðan snýst töluvert um það að fréttaflutningur í fjölmiðlum sé með óviðunandi hætti í einhverjum skilningi að mati einhverra og að setja þurfi lög til þess að breyta þeim flutningi í eitthvert viðunandi horf.

Ég held að við megum ekki falla í sömu gryfju að ætla að lýðræðisleg umræða um málið í þingsölum sé bara tvær hliðar, önnur hliðin flutt af þeim sem eru í stjórn og hin hliðin flutt af hinum sem eru í stjórnarandstöðu. Ef við pólaríserum umræðuna þannig, erum við þá ekki að falla í sömu gryfju og sumir ásaka fjölmiðlamenn um þegar þeir greina frá einstökum deilumálum? Við verðum að hafa víðsýni til þess að taka á málum út frá viðhorfum hvers og eins, við verðum að geta leyft okkur að fara yfir málin án þess að vera með fyrir fram gefna afstöðu í málinu af því að menn eigi að vera í tilteknu liði.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að setja fram sjónarmið mín í málinu eins og þau blasa við mér. Ég vona að menn sýni þeim viðhorfum, bæði mínum og annarra, þá virðingu að virða þau.