2004-05-04 00:11:26# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:11]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnarliðar hafa gjarnan haldið því fram flestir hverjir að þau lög sem til stendur að setja um fjölmiðla séu almenn lög en ekki sértæk lög. Þetta hafa þeir sagt æ ofan í æ á þingi og í fjölmiðlum.

En umræðan í þinginu í kvöld endurspeglar að lögin eru ekki almenn lög. Þetta eru sértæk lög um að brjóta upp tiltekið fyrirtæki í fjölmiðlarekstri. Við þurfum ekki annað en að hlusta á þingmenn tala hér, eins og hv. þm. Halldór Blöndal, til þess að gera okkur grein fyrir því að þetta eru sértæk lög um tiltekið fyrirtæki og umræðan hefur snúist um það og endurspeglar það.

Hv. þm. sem talaði áðan, Kristinn H. Gunnarsson, sagði að löggjöf ætti að vera um það sem getur orðið. Þetta eru held ég skynsamlegustu orð sem ég hef heyrt mælt í þingsalnum í kvöld, löggjöf á að vera um það sem getur orðið. Þessi löggjöf getur ekki orðið til þess að auka fjölbreytni. Það er ekki markmiðið. Þessi löggjöf getur orðið til þess að brjóta upp eitt tiltekið fyrirtæki og það er markmiðið, og það gera menn sér ljóst. Menn eru að setja lög um það sem getur orðið. Það sem getur orðið er að eitt tiltekið fyrirtæki sé brotið upp. Það sem getur ekki orðið er að þetta auki fjölbreytni. Til þess eru aðrar og betri leiðir færar.

Menn eru því vísvitandi að setja sértæk lög, ekki almenn lög. Það kristallaðist í ágætri ræðu þess sem talaði áðan að lög eru það sem getur orðið, og það er þetta.