2004-05-04 00:13:40# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:13]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Að formi til eru þetta almenn lög, þau setja almennar reglur um úthlutun leyfa, en að efni til eru þau sértæk vegna þess að þegar búið er að greina öll skilyrðin og yfirfæra þau á íslenskan veruleika er bara eitt fyrirtæki sem verður fyrir áhrifum laganna. Þess vegna tek ég undir það sjónarmið að lögin eru gegn því fyrirtæki, það er ekki hægt að draga fjöður yfir það. Ég held að það sé ákaflega erfitt að halda öðru fram. Menn geta haft sínar ástæður fyrir því að vilja gera þetta svona. Ég tel að þetta eigi ekki að vera og er ekki sammála því að setja skilyrðin svona niður.

En það eru fleiri sem líta svona á en ætla mætti. Ég fór inn á heimasíðu Sjálfstfl. og las þar upplýsingar um málið eins og þær eru birtar þar. Þar er greint frá áliti nefndar menntmrh. og segir, með leyfi forseta:

,,M.a. annars kom fram að nefndin hafði hvergi í heiminum fundið dæmi þess að fyrirtæki, sem hefði jafnmikil viðskiptaumsvif og Baugur Group hefur á Íslandi, hefði jafnsterka stöðu á fjölmiðlamarkaði og raun ber vitni. Af ofangreindum ástæðum er frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum lagt fram.``