2004-05-04 00:43:58# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:43]

Páll Magnússon (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er um algjöra stefnubreytingu að ræða þegar formaður Samf. lýsir því yfir árið 2002 að veita eigi Samkeppnisstofnun tæki til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki. Slíkt tæki hefur Samkeppnisstofnun ekki í dag. Þarna talar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrir breytingu á samkeppnislögum sem leiddu til þess að hægt væri að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson talaði um frv. sem liggur fyrir núna á þeim nótum að það væri til þess fallið að mölbrjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki. Eftir stendur að hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson talaði um það í dag og greip til kennisetninga frjálshyggjunnar þess efnis að markaðurinn eigi að leiðrétta sig sjálfur. Auðvitað er um stefnubreytingu að ræða þegar fram hefur komið að hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti stefnu Samf. árið 2002 á þann veg að Samkeppnisstofnun ætti að hafa tæki til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki.