2004-05-04 00:52:39# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[24:52]

Páll Magnússon:

Hæstv. forseti. Aðdragandi þessa máls er sá að menntmrh. skipaði nefnd í desember á síðasta ári sem hafði m.a. það hlutverk að kanna hvort tilefni væri til að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Nefndin skilaði af sér mjög vandaðri skýrslu sem tiltölulega góð sátt virðist um í þinginu. Þess ber auðvitað að geta að frv. sem hér er til umræðu byggir á þessari skýrslu.

Það er mikilvægt að halda því til haga að þetta lá fyrir, sú vinna sem ríkisstjórnin setti af stað, þegar eigendur Fréttar og Norðurljósa ákváðu að sameina félögin. Því er ekki hægt að halda því fram að það hafi þurft að koma þeim á óvart að ríkisstjórnin mundi leggja fram frv. um eignarhald á fjölmiðlum eftir að þessi samruni hafði átt sér stað.

Meginniðurstaða skýrslunnar er á þann veg að skýrsluhöfundar telja að grípa eigi til aðgerða á þessu sviði. Bent er á að víðast hvar í nágrannalöndum okkar séu einhver lög eða hömlur á eignarhaldi á fjölmiðlum. Það kemur berlega í ljós hve mikil samþjöppun á sér stað í eignarhaldi fjölmiðla hér á landi og skýrslan dregur vel fram eignarhald markaðsráðandi fyrirtækja á landinu í fjölmiðlum. Það eru afar sérstæðar aðstæður á íslenskum markaði. Það kemur jafnframt mjög skýrt fram í skýrslunni að hvergi sé þetta í raun eins í nágrannalöndunum heldur taki löggjöf í hverju landi mið af aðstæðum hverju sinni og ekki sé í sjálfu sér hægt að finna tiltekna fyrirmynd í þessum efnum.

Það er líka mikilvægt að taka tillit til þess í þessari umræðu að breyttar aðstæður á mörkuðum og í viðskiptalífi kunna að kalla á viðbrögð stjórnvalda. Flest meiri háttar úrræði á sviði samkeppnisréttar og fjármagnsmarkaðar í Bandaríkjunum hafa átt sér stað í kjölfar breyttra aðstæðna, jafnvel hneykslismála. Nægir þar að nefna svonefnt Enron-mál, sem tröllriðið hefur viðskiptalífsumræðu í Bandaríkjunum. Ætla má að sú löggjöf sem gripið var til í Bandaríkjunum í kjölfar þess máls muni hafa áhrif hér á landi áður en langt um líður, m.a. á sviði reikningsskila.

Að mínu mati væri ábyrgðarlaust af hálfu stjórnvalda hér á landi að grípa ekki til aðgerða og það strax í ljósi aðstæðna á fjölmiðlamarkaði.

Í umræðunni hefur verið spurt hvað liggi á. Ég spyr á móti: Eftir hverju er að bíða? Hér liggur til grundvallar ítarleg skýrsla og það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu við lestur skýrslunnar en að grípa þurfi til lagasetningar.

Tvennt finnst mér standa upp úr og kalla á aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Annars vegar það hve mikil samþjöppun hefur átt sér stað á fjölmiðlamarkaðnum. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði verður að teljast mikil. Gildir þá einu hvort horft er til eignarhalds eða stöðu einstakra aðila á markaði.``

Síðar segir í skýrslunni um Norðurljós hf.:

,,Fyrirtækið ber ægishjálm yfir aðra aðila hvað rekstrarlegt umfang og veltu viðkemur ... ýmist sem annar stærsti á markaði eða með markaðsráðandi stöðu.``

Síðar segir í skýrslunni um stöðu Norðurljósa á markaði, með leyfi forseta:

,,Norðurljós hf. eiga Íslenska útvarpsfélagið ehf. sem rekur stöðvar sem hafa 44% af hlustun fyrir hljóðvarp og 37% af áhorfi fyrir sjónvarp. Þá eiga Norðurljós Frétt ehf. sem gefur út Fréttablaðið sem er útbreiddasta blað landsins með daglegan 69% lestur og DV sem lesið er af 17% landsmanna daglega.``

Þetta er að mínu mati önnur meginástæðan fyrir því að grípa þurfi til aðgerða, þ.e. sú gríðarlega samþjöppun sem hefur átt sér stað á fjölmiðlamarkaðnum á undanförnum mánuðum.

Hitt megintilefnið til að grípa til aðgerða er sú staðreynd, sem er vel útlistuð í skýrslunni, að staða markaðsráðandi fyrirtækja innan þessara fjölmiðlafyrirtækja er sterk. Markaðsráðandi staða hefur verið skilgreind með þeim hætti að fyrirtæki í þeirri stöðu geti tekið ákvarðanir að verulegu leyti án þess að taka tillit til keppninauta, viðskiptavina eða neytenda. Þess vegna eru gerðar ríkari kröfur til markaðsráðandi fyrirtækja, ekki bara í samkeppnislögum hér á landi heldur um allan heim. Markaðsráðandi fyrirtækjum eru settar strangari kröfur en öðrum fyrirtækjum á markaði.

Stærsti eigandinn í Norðurljósum, Baugur, hefur ekki bara markaðsráðandi stöðu á einum markaði heldur fjölmörgum mörkuðum. Baugur er í raun allsráðandi á neytendamarkaði á landinu. Hvernig er þá eftirliti háttað með þessum markaðsráðandi fyrirtækjum sem, eins og ég sagði áðan, geta tekið ákvarðanir án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda? Eftirlitið á sér stað á tvo vegu, annars vegar er um að ræða opinbert eftirlit sem við höfum falið Samkeppnisstofnun með setningu samkeppnislaga og hins vegar er eftirlitið í höndum fjölmiðla.

Það vekur því óneitanlega upp spurningar þegar markaðsráðandi fyrirtæki hefur markaðsráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði. Er hægt að halda því fram með trúverðugum hætti að fjölmiðlar í þess eigu geti sinnt þessu eftirlitshlutverki?

Í skýrslu menntmrh. kemur fram að Evrópuráðið hefur sent frá sér tilmæli varðandi fjölmiðla á grundvelli 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Nefnd menntmrh. dregur af því eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

,,Af þessu leiðir, sé það mat íslenskra yfirvalda að aðstæður á fjölmiðlamarkaði séu með þeim hætti að pólitísk og menningarleg fjölbreytni sé ekki tryggð, að þjóðréttarleg skylda hvílir á ríkisvaldinu til að gera beinar ráðstafanir í þeim tilgangi að tryggja hana.`` --- Á þessu grundvallast aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[25:00]

Í tilmælunum kemur fram að aðildarríki Evrópuráðsins skuli huga að því að setja í lög reglur til að hamla gegn samþjöppun. Hægt sé að miða við hámark leyfilegrar markaðshlutdeildar eða takmörk á hlutafjáreign einstakra aðila. Auk þess að leggja til að skoða eignarhald einkafjölmiðla leggur nefnd menntmrh. einnig til, á grundvelli tilmæla Evrópuráðsins, að Ríkisútvarpið verði styrkt.

Ég vil af því tilefni lýsa þeirri skoðun minni að ég tel afar mikilvægt að fara í þá vinnu. Það er orðið löngu tímabært að fara yfir lög um Ríkisútvarpið. Þeim hefur ekki verið breytt um langt árabil og að mínu mati hefur sú nýskipan í ríkisrekstri sem hefur þó náð að ryðja sér til rúms á Íslandi ekki náð til Ríkisútvarpsins, m.a. vegna þess að þar hefur lögum ekki verið breytt. Ég tel koma til greina að fara yfir það hvort rétt sé að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, en umfram allt þarf að gera þær breytingar á lögunum að rekstur þess verði skilvirkari og í meiri takt við það sem gerist hjá samkeppnisfyrirtækjunum, enda er það hamlandi fyrir ríkisstofnun á samkeppnismarkaði þegar löggjöfin tekur ekki tillit til þess.

Frú forseti. Umræðan um fjölmiðlafrv. hefur því miður verið á tilfinningalegum nótum. Þannig hafa til að mynda yfirlýsingar stjórnenda Norðurljósa um fyrirhugaðar uppsagnir á starfsfólki haft áhrif. (MÞH: Hvað með upphrópanir forsætisráðherra?) Hvernig ætli það sé fyrir starfsmenn þessara fyrirtækja? Í hvaða stöðu eru þeir raunverulega að fjalla um frv. í fréttum þegar eigendur hafa lýst því yfir að verði það samþykkt missi þeir vinnuna? Ég tel að umræðan hafi verið allt of hástemmd (Gripið fram í.) og alls ekki aðilum málsins til framdráttar. Ég tel líka að það hafi berlega komið í ljós að eigendur Norðurljósa og forsvarsmenn þess völdu þá leið að persónugera umræðuna. Þeir settu umræðuna í þann farveg að málið varðaði deilu þeirra og hæstv. forsrh. (MÁ: Bjuggu þeir til frv.?)

Ég tel líka athygli vert hve litla athygli yfirlýsingar forstjóra Baugs í Viðskiptablaðinu hafa vakið. Eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur ítrekað vakið athygli á í umræðunni var viðtal við forstjóra Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, í Viðskiptablaðinu þann 30. apríl sl. Þar sagði forstjórinn m.a., með leyfi forseta:

,,Ég held að það sé ekkert endilega hollt að menn eigi meiri hluta í fjölmiðlum, þ.e. fjölmiðlum sem eiga fréttastofur.``

Einnig kemur fram í viðtalinu að Baugur geti sætt sig við eitthvert hámark á eignarhlut og nefnir hann 25% í því sambandi.

Segja má að forstjóri Baugs, sem er stærsti eigandinn í Norðurljósum og menn hafa talað um að frv. beinist helst gegn, fallist í rauninni á grundvallarsjónarmið frv.

Hér hefur líka verið rætt talsvert um ummæli Samf. í gegnum tíðina. Það er alveg ljóst að flokkurinn hefur algjörlega skipt um skoðun á þessum málum (Gripið fram í: Hvar er Jón Kristjánsson?) og vil ég af því tilefni vísa enn og aftur til ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á Alþingi um stefnu Samf. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók undir það áðan í andsvari að stefna Samf. væri að í lög ætti að leiða heimildir stjórnvalda til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki. Þessu lýsti formaður Samf. fyrir tveimur árum en svo fara hv. þm. í hring og tala um lögin sem ólög vegna þess að þau miði að því að brjóta upp fjölmiðlasamsteypuna. Hvernig er hægt að skilja svona málflutning? Það er ekki heil brú í þessu. Menn fara algjörlega í hring í málinu.

Það er ekki bara hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hefur talað á þessum nótum og upp hefur verið rifjað í umræðunni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lét þessi orð falla í Morgunblaðinu árið 2000, með leyfi forseta:

,,Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu. Er reyndar orðin full ástæða til þess að fákeppni og valdasamþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum sé gefinn meiri gaumur og metin áhrifin af þeirri þróun.``

(MÁ: Já, þetta er alveg rétt.) Þetta er alveg rétt.

Margrét Frímannsdóttir sagði á Alþingi um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði fyrir áramótin eins og fram hefur komið, með leyfi forseta:

,,Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Þessi sjónarmið er að finna í frv. sem liggur fyrir.

Að lokum, herra forseti, er rétt að ítreka að meginniðurstaða skýrslu hæstv. menntmrh. er sú að í ljósi aðstæðna hér á landi beri að grípa til aðgerða. Segir í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni.``

Á þessum orðum byggist frv. sem liggur fyrir og vonast ég til þess að það hljóti málefnalega umræðu í þinginu. Vera kann að það taki einhverjum breytingum, það hefur alls ekki verið útilokað af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, en mikilvægt er að ljúka afgreiðslu þess á núverandi þingi og ekki eftir neinu að bíða í því sambandi.