2004-05-04 01:12:19# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:12]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að Íslendingar muni ekki eyða sumarleyfum sínum til þess að lesa skýrsluna. Hún hefur verið aðgengileg á netinu, þökk sé m.a. hv. þm. Helga Hjörvar. Ég held að öllum almenningi, sem hefur þótt tilefni til, hafi verið mögulegt að kynna sér efni hennar. (MÞH: Í eina viku.) Ég var ekki eina viku að lesa skýrsluna, ég held að það hafi tekið mig um tvo klukkutíma að renna í gegnum hana. Hún er ekki flókin. Hún er tiltölulega aðgengileg og einföld.

Ég ítreka að ég tel að almenningur muni ekki verja sumarleyfum sínum til þess að lesa skýrsluna og ég leyfi mér að draga í efa að það muni nokkuð breytast fram á haustið. Ég tel að þó menn taki allt sumarið í umræðuna og komi til þings í haust verði afstaða þingflokkanna nokkuð óbreytt.