2004-05-04 01:13:15# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:13]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Árið 2000 var það ástand uppi á fjölmiðlamarkaði, sé miðað við hina þrengri skilgreiningu á honum, að hann virtist vera að skiptast í þrennt. Á einn vænginn var Morgunblaðið, á annan var Ríkisútvarpið og á hinn þriðja var Stöð 2 og DV sem voru að renna saman virtist mönnum í eina samsteypu. Þetta var árið 2000.

Árið 2004 er uppi sú staða á fjölmiðlamarkaði í hinum þrengri skilningi þess orðs að hann skiptist í þrennt. Á einn vænginn er Morgunblaðið, á annan er Stöð 2 og DV ásamt nýju blaði sem heitir Fréttablaðið og á þriðja vænginn er Ríkisútvarpið.

Um stöðuna árið 2000 sagði hv. þm. Jón Kristjánsson, með leyfi forseta:

,,Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að samkeppni sé ekki fullnægt meðan menn hafa þá stefnu að reka hér ríkisútvarp og ef menn standa almennilega að því.

Menn mega ekki gleyma því að blaðamenn vinna samkvæmt sérstökum siðareglum og það er ekki hægt orðið nú til dags að segja blaðamannastéttinni fyrir verkum á Íslandi.

Ég tel enga hættu að samkeppni sé ekki nóg á Íslandi eins og er í þessum málum, en nota bene, menn verða að standa að því að reka Ríkisútvarpið vel og fólk eigi aðgang að því þannig að það sé þriðji aðilinn í þessari mynd.``

Þetta sagði hv. þm. Jón Kristjánsson, traustur og góður framsóknarmaður. Af hverju hefur Framsfl. breytt um skoðun?