2004-05-04 01:15:27# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:15]

Mörður Árnason (andsvar):

Það er rétt að staðan er að sumu leyti öðruvísi á Íslandi. En frumvarpið sem hér er til umræðu tekur reyndar ekki nema að hluta til þeirrar breyttu stöðu. Stuðningur Framsfl. er því hrein stefnubreyting frá árinu 2000.

Munurinn á Framsfl. og Samf., sem hv. þingmanni Páli Magnússyni hefur orðið afar tíðrætt um í dag og er náttúrlega ekki nema von að leggist þungt á huga hans, er sá að Framsfl. hefur einfaldlega tekið mikla U-beygju, eins og menn tala um. Það virðist til komið af ýmsum ástæðum. Ég hef fyrr í dag kastað fram ákveðnum ástæðum fyrir því, að það sé hreinlega eðli Framsfl. að taka þær beygjur sem Sjálfstfl. skipar honum hverju sinni þegar hann er í stjórnarsamstarfi. Samf. hefur ekki tekið neina slíka sveigju. Samf. hefur á þeim tíma sem hér er vitnað til, og langt aftur í tímann ef miðað er við forvera okkar, haft áhyggjur af þessum málum. Við höfum rætt um hvaða kostir komi þar til greina. Við höfum ekki alltaf haft sömu áherslur í málinu en við höfum alltaf haft áhyggjur af því og um það vitna þær tilvitnanir sem hv. þm. Páll Magnússon kemur hér með, seint og snemma.