2004-05-04 01:17:59# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:17]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Páll Magnússon synti nokkuð hressilegt björgunarsund eftir merka ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Það kom mörgum okkar á óvart að hann skyldi ekki slá sömu nótur og hv. þm. Kristinn gerði í sinni ræðu. En björgunarsundið var ágætlega synt þótt ýmsar gloppur væru í því. Hann missti taktinn á köflum.

Sérstaklega langaði mig til að spyrja hann út í það hvort hann væri virkilega undrandi, af því hann talaði um það af nokkurri undrun, á því tilfinningalega uppnámi sem þeir 2.000 starfsmenn sem vinna hjá Norðurljósum hafa kannski komist í þegar þeir lásu í gegnum fjölmiðlaleka í Morgunblaðið að þeir kynnu að vera að missa atvinnuna innan skamms. Vekur það hv. þm. virkilega undrun að þessi hundruð og þúsund manna sem starfa hjá þessu fyrirtæki, sem hefur róið lífróður síðustu missiri til að halda starfsemi sinni gangandi, komist í tilfinningalegt uppnám og upp komi ýmsar tilfinningar í garð stjórnvalda þegar stjórnvöld ganga fram eins og raun ber vitni og vega hressilega að atvinnu þeirra svo að við þeim blasir atvinnumissir og afkomuhrun?