2004-05-04 01:20:16# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:20]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt til að vita að hv. þm. kemur ekki algjörlega af fjöllum í þessu máli. Það rifjaðist upp fyrir mér að Framsfl. rak kosningabaráttu sína fyrir nokkrum árum undir merkinu Fólk í fyrirrúmi. Þar er áreiðanlega ekki starfsfólk Norðurljósa í fyrirrúmi þar sem það les í fréttum að lífsafkomu þeirra sé hleypt í uppnám með þessum hætti, þegar ráðamenn landsins gera atlögu að störfum þeirra og afkomu með þeim ótrúlega hætti sem við erum að ræða um í kvöld og nótt og trúlega eitthvað fram eftir morgni. (Gripið fram í.) Vinna -- vöxtur -- velferð, nema hjá Norðurljósum.

Það er hreint ótrúlegt að flokkur sem talið var fyrir nokkrum árum og missirum að í væri einhver félagsleg taug enn þá skuli ganga þannig fram að yfir 2.000 manns, 2.000 venjulegir Íslendingar, geti átt á hættu að missa vinnuna út af því að ráðamönnum líkar ekki við eiganda fyrirtækisins.