2004-05-04 01:21:29# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:21]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú full dramatískt fyrir minn smekk. Ég verð að viðurkenna það, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Ég hafna því alfarið að þetta frv. leiði til þess að kippa lífsviðurværi undan öllu þessu fólki. Það er bara ... (BjörgvS: Það blasir við.) Nei, nei, það blasir bara alls ekkert við. Þetta fyrirtæki rann saman í eitt fyrir þremur mánuðum. Fyrir þremur mánuðum varð þessi fjölmiðlarisi til. Hér koma svo hv. þingmenn upp og tala þannig að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að kippa fótunum undan atvinnu 2.000 manns.

Það vantar ekkert upp á dramatíkina hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Ég verð að segja það. Ég vísa þessu alfarið á bug. Svona málflutningur er auðvitað ekki til þess fallinn að ná umræðunni í tilfinningalegt jafnvægi. Þetta er til þess fallið að halda umræðunni á allt of tilfinningalegum nótum með gríðarlegri dramatík og ég veit ekki hvaða hagsmunum það þjónar.