2004-05-04 01:26:01# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:26]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fjallaði um það árið 2002 í tveimur ræðum, annars vegar í umræðum um samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hins vegar í ræðu um horfur í efnahagsmálum, í umræðum utan dagskrár, að færa þyrfti í lög heimild til Samkeppnisstofnunar til að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum. Ég tel að samkeppnisyfirvöld hafi ekki ótvíræðar heimildir í samkeppnislögunum í dag til að ráðast í að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum, enda hefur hv. þm. kallað eftir því fram til þessa. Nú virðist sem svo að hv. þm. hafi skipt um skoðun og kalli ekki lengur eftir því að stjórnvöldum sé heimilt að grípa til þeirra ráða.

Frv. sem hér liggur fyrir boðar heldur ekki slíkt en beinist að því að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum sem ég tel afar mikilvægt að festa í lög á þessu þingi.