2004-05-04 01:27:16# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:27]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Nú er klukkan að verða tvö að nóttu og ég var að velta því fyrir mér sem ég gekk í stólinn hvers vegna við stæðum hér á næturfundi á Alþingi, hvers vegna allir fjölmiðlar landsins væru undirlagðir af fréttum um mikil átök, kallað til skyndifunda í ríkisstjórn um helgar, skýrslur útbúnar með hraði eins og skýrsla sú sem hér hefur m.a. verið til umræðu, um fjölmiðla, þar sem skýrsluhöfundar hafa lýst því yfir að vegna hins mikla tímaskorts sem þeir voru í hefðu þeir ekki getað gengið úr skugga um það hvort tillögur þeirra væru í samræmi við Evrópuréttinn sem hlýtur þó að vera grundvallarforsenda fyrir því að hér sé lagt fram vandað og gott frv.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. hefur allt í einu eftir 13 ára setu á stóli forsrh. ákveðið að nú sé ekkert brýnna úrlausnarefni í íslensku samfélagi en það að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum. Yfirlýsingar og loforð um skattalækkanir í þágu þjóðarinnar eru ekki brýn eða aðkallandi mál sem þinga þarf um fram eftir sumri. Alvarlegt ástand í heimsmálum og aðild okkar að voðaverkum í Írak er ekki mál sem þingið þarf að sitja yfir fram eftir sumri. Nei, það er hið nýja dagskrármál hæstv. forsrh., fjölmiðlarnir og nauðsyn þess að tryggja fjölbreytni þar.

Þessi dramatísku tilþrif, þessir bolludagar sem hafa tilhneigingu til að fylgja athöfnum hæstv. forsrh., gera það gjarnan að verkum að málatilbúnaður allur og umræða færist úr lagi.

Við höfum orðið vitni að því í dag hvernig hv. þm. Sjálfstfl. vitna í Ólaf Ragnar Grímsson, forseta lýðveldisins, og Jón Ásgeir Jóhannesson máli sínu til halds og trausts. Ber þá nýrra við. Sömuleiðis hafa þingmenn Samf. vitnað í lofgjörðir hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar um Ísfilm og aðrar slíkar stórhuga hugmyndir um markaðsráðandi risafyrirtæki í fjölmiðlun og lesið upp úr Birni Bjarnasyni, hæstv. dómsmrh., þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir því hversu fráleitt sé á þessari tækniöld að ætla að banna sama aðilanum að reka miðla í ljósvaka annars vegar og prenti hins vegar, nú þegar tæknin öll er að renna saman í eitt. Sjálfstæðismennirnir saka okkur samfylkingarmennina um að vilja ekki samkeppni og styðja það að fyrirtæki drottni yfir markaðnum sem eins og allir vita er þvert gegn höfuðáherslum okkar jafnaðarmanna. Við ásökum sjálfstæðismennina um að þeir hafi kvatt hugsjónir sínar um frelsi einstaklingsins, um markaðinn, um frumkvæði einstaklingsins og það að takmarka ríkisafskipti. Þannig ganga brigslin með dramatískum hætti á báða bóga, öfgarnar stundum, fyrst til hægri og vinstri nema það er eins og að fylkingarnar hafi skipt um vallarhelming. Það er kannski ekki nema von að þeir sem reyna að hlusta á þessa orðræðu verði dálítið ruglaðir í ríminu.

Þegar stjórnmálamenn eru farnir að rugla með þessum hætti er oft gott að láta þá orðræðu sem vind um eyru þjóta og athuga hvernig raunveruleikinn er, horfa fram hjá þessari hátimbruðu orðræðu í sölum hins háa Alþingis, horfa út um gluggana á veruleikann í íslensku samfélagi og spyrja sig þeirrar einföldu spurningar: Er fjölbreytni í fjölmiðlun knýjandi úrlausnarefni í íslensku samfélagi sem afgreiða verður með hraði, ofboði og valdi og með sérstöku sumarþingi á því herrans ári 2004? Við skulum fara yfir veruleikann eins og hann er.

Veruleikinn á Íslandi er þannig að hér kemur út eitt dagblað í 95 þús. eintökum, Fréttablaðið, og er borið inn á hvert einasta heimili á Stór-Reykjavíkursvæðinu, ókeypis, og það er einsdæmi. Það er einsdæmi að öll heimili í einni höfuðborg njóti þess að fá ókeypis dagblað inn um lúguna hjá sér á hverjum degi. Það skiptir, virðulegur forseti, miklu máli, er jákvætt og gott fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu og fyrir almennt læsi hjá þjóðinni að jafnvel hin fátækustu heimili, jafnvel heimili innflytjenda sem alla jafna gætu farið á mis við það að fylgjast með íslenskum prentmiðlum, allir á höfuðborgarsvæðinu njóti þessa aðgangs. Þeir sem vilja nálgast blaðið úti um landið eiga kost á því.

Svo eigum við Morgunblaðið. Hvorki meira né minna en annað hvert heimili í landinu er áskrifandi að því og ég hugsa að það sé líka einsdæmi í heiminum, að annað hvert heimili í einu landi sé áskrifandi að öðru dagblaði.

Í þriðja lagi höfum við, virðulegur forseti, DV fyrir þá lesendur sem kjósa kannski meira afgerandi fréttir og persónulegri en er að finna í hinum tveimur miðlunum. Það kemur út í hátt í 20 þús. eintökum og þætti víða nokkuð gott. Við búum við slíkan dagblaðamarkað að hér koma út yfir 160 þús. eintök af dagblöðum á dag fyrir þjóð sem telur 290 þús. manns. Hér eru í landinu rétt liðlega 90 þús. heimili og það eru nærri því tvö eintök af dagblaði á hvert heimili í landinu. Erlendum mönnum þykir ótrúlegt þegar þeim er sagt frá þessari sterku stöðu prentmiðlanna á Íslandi.

Svo eru tímaritin. Horfum á hina miklu flóru af tímaritum. Við höfum glanstímarit, bókmenntatímarit og akademísk tímarit. Við höfum héraðsblöð, vikublöð, ársfjórðungsrit og ársrit. Við höfum félög, sjálfseignarstofnanir, einstaklinga og hlutafélög hringinn í kringum þetta land prentandi skoðanir sínar og sýn á hverjum einasta degi ársins. Það verður ekki með nokkrum rökum sagt að í prentmiðla á Íslandi skorti fjölbreytni. Veruleikinn er einfaldlega ekki þannig.

Þegar við lítum til ljósvakamiðlanna sjáum við hátt í 20 útvarpsstöðvar. Þessi þjóð --- ég minni aftur á að Íslendingar eru 290 þús., 0,29 millj. --- rekur hátt í 20 útvarpsstöðvar á íslensku. Við höfum menningarstöð, aðra stöð sem útvarpar einvörðungu talmáli, talmálsútvarp, vandaðar dægurmálastöðvar og síðan höfum við fjöldann allan af afþreyingarstöðvum. Þegar kemur að sjónvarpi eigum við fjórar íslenskar sjónvarpsstöðvar. Þar eru tvær fréttastofur, voru til skamms tíma raunar þrjár, og við höfum úr að velja tugum erlendra sjónvarpsstöðva á degi hverjum, varpað um fjölvarpið eða um breiðvarpið fyrir utan að óvíða hygg ég að meiri internetnotkun sé en á Íslandi. Hér er stærstur hluti íbúanna tengdur internetinu, hér eru gefnir út netmiðlar hægri og vinstri og heimsóknir á þá skipta tugum þúsunda á degi hverjum. Þá er ég bara að tala um heimsóknirnar á íslensku netmiðlana. Þá er ég ekki að tala um heimsóknir Íslendinga á erlenda netmiðla.

Virðulegur forseti. Þegar ég var strákur, og það er ekkert mjög langt síðan þó að það sé orðið allnokkuð, ég viðurkenni það, hæstv. forseti, var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Það var ekkert sjónvarp í júlí og við gátum hlustað á lög unga fólksins í 40 mínútur á þriðjudagskvöldum. (ÖS: Með Ástu R.) Með hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, já, það er rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þar lagði hún eins og víða annars staðar gjörva hönd á plóg. En að halda því fram í fullri alvöru, eftir að vera nýkominn út úr þessum veruleika, eftir að vera nýkominn út úr þeim veruleika að hafa sjónvarpslausa fimmtudaga, sjónvarpslausa júlímánuði og algera einokun ríkisins á ljósvakamarkaði, að sú gríðarlega flóra og ótrúlega framleiðsla á útvarps- og sjónvarpsefni sem fram fer á Íslandi sýni skort á fjölbreytni og það sé eitthvert sérstakt viðfangsefni íslenskra stjórnmála einmitt nú að taka á því máli er auðvitað bara fjarstæða. Sennilega gætu menn ekki talað sig upp í hita um það neins staðar annars staðar en hér á hinu háa Alþingi nema ef vera skyldi í Útvarpi Matthildi, virðulegur forseti.

Hvað er það þá sem rekur menn til þess? Jú, þeir segja: Fjölbreytni í eignarhaldi. Já, það er sem sagt ekki fjölbreytni í allri dagblaðaútgáfunni eða fjölbreytni í ljósvakamiðlunum sem skiptir máli, nei, það er fjölbreytnin í eignarhaldi. Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að það eru til ,,vondir`` eigendur, eins og ritstjórn Morgunblaðsins kaus að benda á á dögunum. (Gripið fram í: ... framleiðendur.) Hæstv. forsrh. hefur líka haldið því fram að hér væru í landinu fjölmiðlar sem væru misnotaðir oft á dag, ef ég man rétt.

Nú skulum við ekki neita því að auðvitað geta eigendur haft áhrif á fjölmiðla. Það er ekki hægt að neita því. Auðvitað hlýtur Ríkisútvarpið nokkuð að markast af þeim pólitíska vilja sem þar fer fyrir og auðvitað hlýtur það að hafa einhver áhrif á fjölmiðla Baugsveldisins sem kallað er hverjir eiga það. Hið sama hlýtur að gilda um Morgunblaðið. Við getum ekki neitað því en engu að síður eru frétta- og blaðamenn á Íslandi sem betur fer í meginatriðum sjálfstæðir. Þeir litast kannski af því að vinna hjá ákveðnum eigendum, taka kannski stundum óafvitandi tillit til hagsmuna þeirra en ég held að heiður blaðamannastéttarinnar sé almennt sá að þó að Sjálfstfl. reyni að beita sér á Ríkisútvarpinu hafi það þegar allt kemur til alls fremur óveruleg áhrif á fréttaflutninginn og hið sama eigi við á Morgunblaðinu og hjá Baugi.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að hér sé ekki um raunverulegt áhyggjuefni að ræða þó að vissulega séu rök fyrir því að treysta eigi stöðu blaða- og fréttamannanna með löggjöf gagnvart eigendum sínum þannig að staða þeirra í starfi verði sterkari. Ég held samt að fjölmörg dæmi sýni okkur að íslenskir blaðamenn eru vandir að virðingu sinni og hafa ekki hikað við að neita eigendum um að láta eftir vilja þeirra þá sjaldan það hefur komið upp.

Hvers vegna leggjum við í Samf. þá svo ríka áherslu á að þessi nýja haftastefna Sjálfstfl. nái ekki fram að ganga? Ástæðan er sú að hér er um að ræða blómlega atvinnugrein, ekki bara fjölbreytta fjölmiðla heldur blómlega atvinnugrein. Hér á landi starfa á annað þúsund manns að fjölmiðlun og það er mikilvægt að sú fjölbreytta flóra sem þar er viðhaldist og að hún verði ekki fábreytninni eða fáokuninni að bráð. Þegar við lítum til þess hverjir hafa fjármagnað uppbyggingu ljósvakafjölmiðla á Íslandi og raunar ýmissa annarra fjölmiðla er það einfaldlega þannig að markaðsráðandi fyrirtæki hafa komið mjög sterkt inn í þá uppbyggingu. Að mörgu leyti hefði sú uppbygging vart orðið nema fyrir þá sök að markaðsráðandi fyrirtæki sáu hag sinn í því að taka þátt í þeirri uppbyggingu, já, sáu hag sinn en ekki þurfa endilega að felast í því óheilindi. Það þurfa ekki að felast í því óheilindi að Skífan, fyrirtæki sem selur myndbönd, tölvuleiki og hljómdiska, sjái hag sinn í aðild að fjölmiðlafyrirtæki. Það þurfa ekki að vera óheilindi þó að markaðsráðandi fyrirtæki eins og SAM-bíóin á bíómarkaðnum sjái sér hag í því að eiga aðild að útvarpsstöð. Það þurfa ekki að vera óheilindi þó að hinn markaðsráðandi Kántrýbær sjái hag sinn í því að reka útvarpsstöð og kynna starfsemi sína. Og þó að það væri að vísu bannað samkvæmt þessum lögum að sú útvarpsstöð yrði landsstöð yrðu engin óheilindi í því þó að Kántrýbær mundi vilja með þeim hætti nýta ljósvakann til að kynna starfsemi sína um land allt og draga að viðskiptavini.

Það eru einfaldlega fjölmargar heilbrigðar ástæður fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki hafa verið tilbúin til þess, kannski öðrum fyrirtækjum fremur, að leggja fé í ljósvakamiðlana. Það þarf ekki að tengjast neinum óheilindum, enda hefur stjórnarliðið engin dæmi í veröldinni getað bent okkur á að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki leggja fé í ljósvakamiðla. Það lítur út fyrir að við séum þá að taka upp harðdrægustu og mest takmarkandi fjölmiðlapólitík í heiminum öllum. Við göngum jafnvel lengra en sjálfir Norðmenn. Við erum þó með þetta litla málsvæði þar sem brýnt er að sem allra flestir geti og megi fjárfesta í framleiðslu á íslensku efni á íslenskri tungu fyrir íslenskan markað, fyrir langtímahagsmuni þessarar þjóðar, herra forseti.

Þótt stjórnarliðarnir hafi getað bent á það að víða tíðkist að binda leyfi til ljósvakastarfsemi ýmsum skilyrðum, m.a. því að standa ekki í blaðaútgáfu, er til þess að líta að í stórum löndum á borð við Bretland, Þýskaland, Frakkland, Bandaríkin o.s.frv. er ljósvakinn takmörkuð auðlind, eins og hv. 6. varaforseti Alþingis Birgir Ármannsson benti á fyrr í umræðunni. Í þessum löndum þarf að velja hverjir fá að komast að og hverjir fá ekki að komast að. Þess vegna er eðlilegt að menn setji reglur um það hvernig útdeila eigi takmörkuðum gæðum. Ljósvakinn á Íslandi er hins vegar ekki takmörkuð gæði. Útvarpsréttarnefnd hefur bara, takk fyrir, heila rás sem enginn er að biðja um. Þess vegna eru þau skilyrði ekki fyrir hendi í íslensku samfélagi sem kallað hafa á skilyrði fyrir útgáfu ljósvakaleiða í öðrum löndum. Þau skilyrði eru einfaldlega ekki fyrir hendi.

Það er skoðun mín að það sé röng niðurstaða í frv. sem hér er til umfjöllunar að prentfrelsi séu skorður settar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé röng ákvörðun, ef tekin verður á Alþingi, að setja takmörk við því hverjir megi gefa út blað. Ég tel að allir eigi að mega gefa út blað, háir og lágir, ríkir og fátækir, góðir og vondir. Ef maður vill prenta blað á íslenskri tungu og dreifa því eða selja á honum að vera það frjálst, hvort sem hann á ljósvakamiðil eða ekki. Ég tel að það sé óheillaspor að setja takmörkun við því og ég tel út frá sjónarmiðum um tjáningarfrelsi að sama sjónarmiðið sé uppi í ljósvakanum vegna þess að hann er ekki takmörkuð auðlind á Íslandi. Meðan hann er ekki takmörkuð auðlind tel ég mikilvægt að allir þeir sem vilja útvarpa eða sjónvarpa og hafa til þess burði geti sótt um það og fengið meðan enginn skortur er á rásunum. Ég tel að þessi bægslagangur allur sé gegn straumi tímans og fái ekki staðist, í fyrsta lagi ekki fyrir dómstólum og þótt hann stæðist þar, þá ekki nema fáein missiri því við erum að sigla inn í stafrænt sjónvarp þar sem nóg framboð verður af rásunum og hver getur fengið sem hann vill. Það er mikilvægt að skerða ekki frelsi manna, jafnvel þó að þeir séu ríkir, til að prenta skoðanir sínar, segja þær, útvarpa þeim eða sjónvarpa ef þeim býður svo við að horfa. Ég tel ekki að í umræðunum í dag hafi komið fram nein röksemd, herra forseti, sem gefur tilefni til að skerða svo mjög frelsi manna til fjölmiðlunar að setja hér afturhaldssömustu lög sem við finnum um þau efni.