2004-05-04 01:49:57# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:49]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að þetta er ekki í fyrsta sinn á þingferli mínum sem menn hafa komið upp í andsvörum til að bera mig þeim sökum að ég hafi gleymt mikilvægum atriðum í málflutningi mínum og ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á þessari útvarpsstöð sem ég þekki í sjálfu sér ekki.

Hann beinir auðvitað kastljósinu að kjarna spurningarinnar sem hér er fyrir. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við banna einhverjum sem vill setja peninga í að framleiða efni fyrir hljóðvarp eða sjónvarp á íslensku og dreifa því? Herra forseti. Ég bara spyr. Hér er til ráðstöfunar heil sjónvarpsrás og enginn biður um hana. Hér hafa fyrirtæki á ljósvakamarkaði gengið á milli fjárfesta, leitað eftir fjármagni og ekki fengið. Það er enginn að berja á þessar dyr en ef menn banna markaðsráðandi fyrirtækjum að vera á markaðnum eru þeir jafnframt að banna til að mynda bönkunum eins og bent hefur verið á í umræðunni að eiga þessi fyrirtæki. Ef bönkunum er óheimilt að eiga þau er algert glapræði fyrir þá að lána þeim þannig að það er algerlega augljóst að það er verið að herða að og kyrkja hina frjálsu fjölmiðla með frv.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja báða þessa hv. þm. að virða þingsköpin og vera ekki að kveðja sér hljóðs undir andsvörum þegar slíku er ekki til að dreifa.)