2004-05-04 01:51:53# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:51]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Nokkur athyglisverð sjónarmið komu fram í ræðu hv. 9. þm. Reykv. n. Meðal þess sem vakti athygli mína voru ummæli um að auðvitað hefðu eigendur áhrif, starfsmenn gætu litast af því að vinna hjá ákveðnum eigendum og starfsmenn gætu óafvitandi hegðað sér með einhverjum tilteknum hætti til að gera eigendum til geðs.

Ég er alveg sammála sjónarmiði hv. þingmanns um að margir góðir blaðamenn láta slíka hluti ekki hafa áhrif á sig. Hins vegar finnast mér ummælin sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að aðrir talsmenn Samf. í kvöld, flestallir, hafa beinlínis hafnað því að þetta gæti skipt máli í þessu sambandi. Ég verð að segja að að þessu leyti er ég meira sammála hv. 9. þm. Reykv. n. en þeim þingmönnum Samf. sem fyrr hafa talað.

Annað atriði sem skiptir líka máli og sem kom fram í ræðu hv. þingmanns var það að hann telur okkur ekki standa í þeim sporum að hér séu raunveruleg áhyggjuefni í sambandi við samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Það finnst mér líka vera svolítið í öðrum stíl en hjá mörgum öðrum sem hafa talað í kvöld, talsmönnum Samf. og öðrum talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Ég hef skilið þá svo að vissulega væru merki um samþjöppun áhyggjuefni en ríkisstjórnin legði bara ekki til rétta leið. Til þess að fá þetta á hreint vildi ég biðja hv. 9. þm. Reykv. n. að staðfesta þann skilning minn að engar áhyggjur þurfi að hafa af þessum markaði hér og þeirri samþjöppun sem kann að hafa átt sér stað.