2004-05-04 01:56:17# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:56]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra að sérstök fræðigrein fjalli um áhrif eigenda á starfsmenn fjölmiðla og skiptir máli að það komi fram við þessa umræðu af því að hér hefur stundum verið látið í veðri vaka að slík áhrif væru ekki og gætu ekki verið fyrir hendi. Ég minni á að um allan heim á sér stað umræða sem tengist áhrifum eigenda á fjölmiðla. Tilefni þessa frv. eru auðvitað áhyggjur manna af því að eigendunum fækki óhæfilega mikið, að eigendurnir verði ekki margir með mismunandi sjónarmið og mismunandi hagsmuni heldur færist eignarhaldið á of fáar hendur. Það er áhyggjuefnið.

Varðandi almennu sjónarmiðin um viðskiptafrelsi, atvinnufrelsi og frelsi fyrirtækja frá ríkisafskiptum stendur allt sem ég hef sent inn í erindum til Alþingis og hef áður sagt, enda hef ég aldrei hafnað því að sérstakar leikreglur gætu átt við á sérstökum mörkuðum þar sem hætta er á að ekki sé nægilega vel farið með það vald sem felst í stöðu fyrirtækja á markaði.