2004-05-04 02:00:06# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, DJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[26:00]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Fjölmiðlar gegna margs konar hlutverki í nútímalýðræðisríki. Þeir upplýsa, fræða og móta skoðanir almennings. Þeir hafa vald á því hvað er á dagskrá í umræðunni í samfélaginu, þeir segja okkur hvað er í tísku, þeir ráða því hvaða tónlist nýtur mestra vinsælda, hvaða kvikmyndir, þeir dæma leiksýningar og nýjar bækur og þeir veita okkur þær upplýsingar sem við byggjum á skoðanir okkar og viðhorf til fjölmargra mála, stórra jafnt sem smárra. Þeir eru líka farvegur þessara skoðana okkar sjálfra og samborgara okkar og spegla samfélagið sem við lifum í um leið og þeir móta það með því valdi sem þeir hafa yfir því hverju við gefum gaum og hvað þeir vinsa fyrir okkur úr öllu upplýsingaflóðinu til þess að beina athygli okkar að. Síðast en ekki síst eiga þeir að veita aðhald okkur sem störfum hér á Alþingi, ríkisstjórn landsins, dómstólum og öllum valdhöfum í þjóðfélaginu, hverju nafni sem þeir nefnast. Það á einnig, og ekki síst, við um þá sem fara með mikil efnahagsleg völd.

Það liggur í augum uppi, virðulegi forseti, að fjölmiðlar eru miklar valdastofnanir í samfélaginu. Áhrif þeirra, bæði þau sem þeir hafa í raun og veru og hin sem hugsanlegt er að þeir geti tekið sér, geta ráðið úrslitum um það hvaða stefnu þetta samfélag tekur. Þess vegna höfum við þjóðréttarlega skyldu til að tryggja lýðræðislega fjölbreytni fjölmiðla hér á landi og sé tilefni til lagasetningar til að vernda fjölbreytnina til þess að koma í veg fyrir óæskilegar afleiðingar þeirrar samþjöppunar sem þegar er orðin og orðið getur í framtíðinni verðum við að grípa til hennar.

Ég nefndi áðan aðhaldshlutverk fjölmiðla og að það eigi einnig að beinast að þeim sem fara með efnahagsleg völd í krafti eigna sinna og stöðu í viðskiptalífinu. Það frv. sem við ræðum hér hefur einmitt það að markmiði að standa vörð um aðhaldshlutverk fjölmiðlanna gagnvart þeim sem fara með efnahagsleg völd og geta í krafti þeirrar stöðu sinnar haft áhrif á og brenglað þá mynd sem við, almenningur í landinu, fáum af þeim margvíslegu málum sem okkur snerta, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem við tökum við innkaup eða það hvaða skoðanir við myndum okkur á máli sem er til umræðu af miklum tilfinningahita í þjóðfélaginu, máli eins og því sem við erum hér að ræða, herra forseti.

Það skiptir þetta samfélag miklu máli að við getum treyst því að fjölmiðlar gangi ekki annarra erinda en okkar, lesenda þeirra og áhorfenda, þegar þeir veita okkur upplýsingar. Hættan á að sú mynd brenglist þarf ekki alltaf að vera til komin vegna vísvitandi aðgerða starfsmanna fjölmiðlanna, hún getur verið að meira eða minna leyti ómeðvituð og átt rætur í uppbyggingu og þeim hefðum sem myndast á miðlunum sjálfum. Það er mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur, það sem okkur er skylt að gera, til að draga úr því að fjölmiðlar séu í þeirri stöðu að þeir geti misnotað lýðræðið í þágu sjónarmiða eigenda sinna.

Fjölmiðlar eru ekki bara þessar lýðræðislegu stofnanir. Þeir eru líka, og ekki síst, fyrirtæki sem veita fjölmörgu starfsfólki atvinnu, þurfa að skapa tekjur og geta skilað eigendum sínum hagnaði. Það markmið sem við höfum að leiðarljósi með aðgerðum til að koma í veg fyrir samþjöppun í eignarhaldi er jú fjölbreytni, það að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast.

Þær aðgerðir sem við grípum til mega ekki verða til þess að draga úr fjölbreytni, þá er verr af stað farið en heima setið. Þess vegna er brýnt að standa vörð um rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem fært hafa okkur aukna fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði undanfarna mánuði og ár um leið og við gerum skyldu okkar til að hindra að það afl sem í þeim miðlum býr geti verið nýtt til þess að gera þá að tæki annarra efnahagslegra eða pólitískra hagsmuna eigenda sinna.

Í frv. sem við ræðum verður fullt tillit tekið til þessara sjónarmiða og ég treysti því að Alþingi muni gæta að því að niðurstaða þeirrar lagasetningar verði ekki til þess að draga úr framboði fjölmiðla í landinu.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna þá niðurstöðu höfunda skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum að ein hinna vænlegustu leiða, þótt hún nægi ekki ein og sér til að tryggja nauðsynlega fjölbreytni, sé sú að gera breytingar á samkeppnislögum og fela Samkeppnisstofnun mikilvægt hlutverk við eftirlit á þessum markaði á grundvelli þeirra sérstöku sjónarmiða sem snúa að fjölbreytni og lýðræði en jafnframt með eðlilegu tilliti til þess að hér er um að ræða fyrirtæki í viðskiptum og að viðskiptaleg sjónarmið þurfa að fá eðlilegt vægi í því hagsmunamati sem fram fer þegar teknar eru ákvarðanir sem þrengja svigrúm fjölmiðla á einkamarkaði.

Virðulegi forseti. Flest erum við vön því að þegar talað er um fjölmiðla sé fyrst og fremst átt við þá fjölmiðla sem hæst ber í umræðunni og ná til landsins alls. Það er að mörgu leyti skiljanlegt því áhrif þeirra eru mest í allri umræðu. Einu vil ég þó halda sérstaklega á lofti í þessu samhengi og í þessari umræðu um fjölbreytni í fjölmiðlum, þeirri staðreynd að ég tel að okkur beri einnig skylda til þess, eftir því sem unnt er, að stuðla að fjölbreytni í svæðisbundinni fjölmiðlun, þ.e. þeim fjölmiðlum sem hafa aðeins útbreiðslu í tilteknum sveitarfélögum eða landshlutum.

Fyrir þessu eru margvísleg rök, herra forseti, ekki síst þau að um leið og við ræðum það í pólitískri umræðu að fela sveitarfélögum aukin verkefni og að þau muni í framtíðinni í auknum mæli annast þá nærþjónustu sem íbúarnir þarfnast eykst þörf íbúanna til þess að fá upplýsingar og eiga völ á markvissri, opinberri umræðu um þessi málefni.

Í skýrslunni um eignarhald á fjölmiðlum er nefnt að ríkisstyrkir séu ein þeirra leiða sem til greina komi til að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun. Hún byggir að miklu leyti á hugmyndum sem fram hafa komið á vettvangi Evrópuráðsins. Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að þótt nefndin geri þetta ekki að tillögu sinni tel ég fyllstu ástæðu til að velta þessu upp og ræða í tengslum við það hvort ástæða sé til að fara þessa leið til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun á landsbyggðinni.

Eitt er ljóst í mínum huga, frv. sem Alþingi fjallar nú um vegna eignarhalds á fjölmiðlum mun ekki verða til þess að draga úr þeirri fjölbreytni eða setja starfsemi fjölmiðla, hvorki þeirra sem ná til landsins alls né hinna sem aðeins hafa svæðisbundna útbreiðslu, svo þröngar skorður að niðurstaðan verði fábreyttara umhverfi en við búum nú við verði það að lögum. Þess vegna munu þau lög sem Alþingi setur gæta fyllsta réttar gagnvart tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, eignarréttindum og öðrum þeim réttindum þeirra aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta og ekki fara harkalegri leið en nauðsynlegt er að fara að hinu lögmæta markmiði um lýðræðislega fjölbreytni í fjölmiðlun, í víðasta skilningi þess hugtaks.